Á milli klukkan 15 og 16 í gær mældist úrkoma á Kálfhóli á Skeiðum 16,3 mm. Þetta er meira en áður hefur mælst á svo skömmum tíma á stöðinni.
Trausti Jónsson, veðurfræðingur, greinir frá þessu á bloggsíðu sinni, Hungurdiskum. Að sögn Trausta er næsta tala fyrir neðan ekki mikið lægri, 15,2 mm sem mældust þann 10. ágúst árið 2009.

Trausti segir að ratsjármyndir sýni að í gær gengu snarpar skúrir yfir Suðurlandsundirlendið, býsna tilviljanakennt.
„Ef til vill hefur ákefðin einhvers staðar verið meiri en þessi mæling sýnir. Kannski hitti þessi mæling bara einstaklega vel í úrkomumælirinn,“ segir Trausti og bætir við að gera verði ráð fyrir dembum á víð og dreif næstu daga.