Metþátttaka í sauðfjársæðingum

Alls voru sæddar 15.570 ær með fersku sæði frá Sauðfjársæðingastöð Suðurlands haustið 2016 og er það mesta notkun frá upphafi.

Veður og færð var hagstætt en þó brugðust flugsamgöngur tvívegis. Nýting á útsendu sæði var tæp 68% sem er aðeins meira en í fyrra en þó varla viðunandi, að því er fram kemur í frétt á heimasíðu Búnaðarsambands Suðurlands.

Mikil aukning í sæðingum var hjá Skagfirðingum, Húnvetningum og Rangæingum. Áberandi var hvað margir fjárbændur sæddu yfir 100 ær en á Suðurlandi voru þeir átján og að auki voru sex bændur með milli 90 og 100 ær sæddar.