Mestu afföllin á Vestur- og Suðurlandi

Þann 9. júní barst Matvælastofnun tilkynning um óvenjumikinn fjárdauða á Vesturlandi. Þegar var hafist handa við að rannsaka málið og nú hefur verið skrifuð áfangaskýrsla um rannsóknina.

Í upphafi var haft símasamband við fjölmarga bændur og dýralækna um allt land til að afla upplýsinga og jafnframt var útbúinn listi yfir spurningar sem bændur voru beðnir um að svara rafrænt á Bændatorginu.

Af könnuninni að dæma drapst um helmingi fleira fé í ár en undanfarin tvö ár eða að meðaltali 4%. Mest voru afföllin á Vesturlandi og Suðurlandi. Hjá helmingi svarenda drapst meira en eðlilegt getur talist eða meira en 2%.

Hjá 7% svarenda á Suðurlandi voru afföllin meiri en 14% og hæsta tíðnin var 30% afföll hjá sauðfjárbónda á Suðurlandi.

Orsök þessa er þó enn óljós og því verður haldið áfram með rannsóknina í haust og næsta vetur. Margar þeirra kinda sem krufnar voru drápust úr næringarskorti, þótt þær hafi augljóslega étið fram á síðustu stundu en krufningin hefur ekki varpað skýrara ljósi á orsök vandans.

Áfangaskýrslan á vef MAST