Mesta rennsli í Ölfusá í níu ár

Jóruklettur er ágætis vatnshæðarmælir og svona leit hann út þegar vatnshæðin var sem mest í gær. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Rennsli í Ölfusá náði hámarki síðdegis í gær eftir miklar leysingar undanfarna daga. Víða hafa ár og lækir á Suðurlandi flætt yfir bakka sína undanfarna daga.

Í færslu frá Eldfjalla- og náttúruvárhópi Suðurlands kemur fram að rennsli Ölfusár við Selfoss mældist um 1.150 m3/sek síðdegis í gær, en síðan fór að sjatna í ánni.

Þetta er mesta rennsli sem mælst hefur á vatnshæðarmæli við Selfoss í níu ár, eða síðan í lok febrúar 2013. Þá náði rennslið um 1.400 m3/sek. Ölfusá var nánast bakkafull neðan við Ölfusárbrú í gær en þó vantaði töluvert uppá að vatnavextirnir yllu einhverjum usla.

Fyrri greinEggert Valur leiðir Á-listann í Rangárþingi ytra
Næsta greinEkki til zetunnar boðið