Mesta hlutfallslega fjölgunin í Mýrdalshreppi

Vík í Mýrdal. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Á tímabilinu 1. desember 2019 til 1. júní 2020 fjölgaði íbúum í Mýrdalshreppi hlutfallslega mest á öllu landinu. Fólksfjölgunin í Mýrdalshreppi á þessu tímabili var 7,6%, en þar fjölgaði um 53 íbúa og eru íbúar hreppsins nú 770.

Þetta kemur fram í tölum Þjóðskrár Íslands um íbúafjölda í sveitarfélögum á Íslandi.

Einnig fjölgaði mikið hlutfallslega í Ásahreppi, um 6,0% og í Skaftárhreppi, um 5,6%. Íbúum Ásahrepps fjölgaði um 15 og eru þeir nú 266 talsins og í Skaftárhreppi fjölgaði um 35 og eru íbúarnir 661 talsins.

Mesta tölulega fjölgunin var í Árborg þar sem fjölgaði um 89 íbúa, eða 1,2%. Íbúar Árborgar eru nú 10.144 og telur sveitarfélagið tæp 42% af íbúafjölda Árnessýslu, Rangárvallasýslu og V-Skaftafellssýslu. 

Í Bláskógabyggð fjölgaði um 39, eða 3,4%, og eru íbúar þar nú orðnir 1.201 og Hvergerðingar eru nú fleiri en 2.700. Í Hveragerði bjuggu 2.705 manns þann 1. júní síðastliðinn og hafði fjölgað þar um 8 íbúa, eða 0,3% síðan í desember.

Fækkar í þremur sveitarfélögum
Íbúafækkun varð í þremur sunnlenskum sveitarfélögum á þessu tímabili, mest í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, þar sem fækkaði um 16 íbúa, eða -2,6%. Í Ölfusi fækkaði um tvo íbúa og í Flóahreppu um einn íbúa, sem er -0,1% í báðum tilvikum.

Þann 1. júní síðastliðinn bjuggu 24.326 manns í Árnessýslu, Rangárvallasýslu og V-Skaftafellssýslu og hafði fjölgað um 290 frá 1. desember 2019.

Fyrri greinÞurrgallinn reyndist Friðrik vel
Næsta greinHrunamenn leika í 1. deild