Mest strikað yfir Eyþór

Í fjórum stærstu sveitarfélögunum á Suðurlandi, fengu sjálfstæðismennirnir Eyþór Arnalds, Þorgils Torfi Jónsson og Guðmundur Ingi Gunnlaugsson verstu útreiðina í útstrikunum í sveitarstjórnarkosningunum.

Alls strikuðu 203 kjósendur Sjálfstæðisflokksins í Árborg yfir nafn Eyþórs Arnalds. Það gera tæp ellefu prósent atkvæða. Í kosningunum 2006 strikuðu um tuttugu prósent yfir nafn hans. Þá hafði hann dregið sig til hlés vegna ölvunaraksturs og beinlínis mælst til þess að fólk strikaði yfir nafn hans í stað þess að hætta við að kjósa flokkinn.

Af öðrum oddvitum í Árborg strikuðu 38 yfir nafn Ragnheiðar Hergeirsdóttur, 22 yfir Helga S. Haraldsson og 10 yfir Þórdísi Eygló Sigurðardóttur. Athygli vekur að næstflestar yfirstrikanir, 49 talsins, voru yfir nafni Kjartans Björnssonar sem skipaði sjötta sæti D-listans.

Í Rangárþingi ytra var mest um útstrikanir hjá D-listanum. Þannig strikuðu 45 kjósendur (12,5%) yfir nafn Þorgils Torfa Jónssonar, 40 yfir Guðmund Inga Gunnlaugsson og 23 yfir Ingvar Pétur Guðbjörnsson. Hjá Á-listanum strikuðu 21 (4,3%) yfir nafn oddvitans Guðfinnu Þorvaldsdóttur.

Í Rangárþingi eystra strikuðu átján yfir nafn Guðlaugar Svans­dóttur á B-lista. Þar á eftir voru Birkir Tómasson, D-lista, og Ingi­björg Erlingsdóttir, V-lista, með átta útstrikanir hvort.

Hvergerðingar beittu pennanum lítið. Oddvitar framboðanna fengu flestar útstrikanir en þó færri en tíu hver.

Sunnlenska fékk ekki upplýsingar um útstrikanir í Ölfusi vegna utanlandsferðar formanns kjörstjórnar.