Mest lesnu fréttir ársins

Það var nóg að frétta á árinu. Meirihlutinn í Rangárþingi ytra féll, Russel Crowe var óþekkjanlegur, Rúmfatalagerinn opnaði á Selfossi og 800Bar varð eldi að bráð.

1. Hárið farið!
„Mér líður mjög vel. Ég held að mér hafi bara aldrei liðið jafn vel,“ sagði Erna Kristín Stefánsdóttir, 21 árs gömul Selfossmær, sem rakaði af sér allt hárið til styrktar ABC barnahjálp einn fagran júnídag.

2. „Margrét Ýrr hefur mikið á sinni samvisku“
Það var hiti í mönnum þegar meirihlutinn í Rangárþingi ytra féll í nóvember. Guðfinna Þorvaldsdóttir, oddviti Á-listans, sagði sorglegt að einn aðili skuli geta haft það vald að fella meirihlutann með því að yfirgefa hann og bregðast þannig trausti mikils meirihluta kjósenda. Þá var einnig mikið lesin frétt þar sem Margrét Ýrr Sigurgeirsdóttir sagði sína hlið á málinu. http://nyr.sunnlenska.is/frettir/10800.html

3. Handtekinn eftir að hafa spólað yfir hestamenn
Lögreglan á Selfossi handtók ökumann fjórhjóls í apríl sem ógnaði hestamönnum á göngustíg við Móhellu í suðurbæ Selfoss. Stígurinn var umdeildur en hestamenn notuðu hann þrátt fyrir að umferð hesta væri þar bönnuð. Síðar á árinu var samþykkt blönduð umferð um stíginn.

4. Eva Dögg Ungfrú Suðurland 2012
Eva Dögg Davíðsdóttir, 18 ára Eyjamær, var valin Ungfrú Suðurland 2012 á Fegurðarsamkeppni Suðurlands sem fram fór á Hótel Selfossi að kvöldi 31. mars.

5. Þekkti ekki fræga ferðalanginn
„Ég viðurkenni það, ég þekkti hann ekki, enda er hann orðinn fúlskeggjaður,” sagði fiskifræðingurinn Benóný Jónsson á Hvolsvelli sem tók puttaferðalanginn og Hollywoodleikarann Russell Crowe upp í bílinn sinn í ágúst.

6. Færðu tveimur fjölskyldum góða gjöf
Sjúkraflutningamenn Heilbrigðisstofnunar Suðurlands heimsóttu tvær barnafjölskyldur á aðfangadag og færðu þeim peningagjöf sem er ágóði af árlegri dagatalssölu sjúkraflutningamannanna.

7. Rúmfatalagerinn opnar á Selfossi
Eigendur Rúmfatalagersins tilkynntu í lok október að þeir myndu opna nýja verslun að Austurvegi 69 á Selfossi fyrir jól. Það stóð heima og búðin var opnuð þann 30. nóvember.

8. Engin busavígsla í FSu
Það var púað á nýja skólameistarann, Olgu Lísu Garðarsdóttur, þegar hún ávarpaði nemendur Fjölbrautaskóla Suðurlands við skólasetninguna í ágúst og tilkynnti nemendunum að hin hefðbundna busavígsla yrði lögð niður.

9. „Sjúklega spennt að vera komin áfram“
Anna Hansen, söngkona frá Leirubakka í Landssveit, komst í september í 32 manna úrslit í danska tónlistarþættinum Voice. Hún féll úr keppni þegar skorið var niður í 16 manna hóp.

10. „Granítharður að opna nýjan stað“
„Maður er bara enn að átta sig á þessu. Þessi dagur er búin að vera ein löng jarðarför en ég er alveg granítharður á því að byggja upp nýjan stað.“ Þetta sagði Eiður Birgisson, veitingamaður á 800Bar, að kvöldi 14. mars en skemmtistaðurinn eyðilagðist í eldsvoða eftir að eldur kom upp í skemmu hjá röraverksmiðjunni SET. Myndaalbúm frá brunanum var einnig gríðarlega mikið skoðað.

Fyrri greinAfhenti SOS 477.500 krónur
Næsta greinKertaljós og kósíheit í Hrunakirkju