Mest lesnu fréttir ársins 2023

Það urðu svo sannarlega fagnaðarfundir þegar Snorri og Fjóla hittu Gauta á flugvellinum í Róm. Ljósmynd/Fjóla St. Kristinsdóttir

Það var nóg að frétta á Suðurlandi árið 2023 og umferðin um sunnlenska.is hefur aldrei verið meiri. Hér er yfirlit yfir tíu mest lesnu fréttir ársins.

1. Niðurstaða alútboðsins mikil vonbrigði
Tilboð í byggingu nýrrar Hamarshallar voru opnuð í mars og reyndust þau öll vel yfir kostnaðaráætlun Hveragerðisbæjar. Sandra Sigurðardóttir, formaður bæjarráðs, sagði að vonbrigðin hafi verið mikil þegar tilboðin voru opnuð. Enn bólar ekkert á nýrri Hamarshöll.

2. „Rosalega stutt á milli þrátt fyrir að maður sé hraustur“
Knattspyrnukonan Hólmfríður Magnúsdóttir var hætt komin í upphafi árs vegna alvarlegra veikinda. Hún er nú byrjuð að hreyfa sig aftur af sínum alþekkta krafti og sagði hún sunnlenska.is sögu sína í viðtali á milli jóla og nýárs.

3. Litli bróðir kom og sótti Íslendingana
Hópur íslenskra ferðamanna var staddur í Ísrael þegar stríðið hófst þar í október. Stærstu hluti hópsins voru Sunnlendingar og ákvað utanríkisráðuneytið að senda farþegaflugvél til að sækja hópinn. Flugmaðurinn var Selfyssingurinn Gauti Sigurðsson en svo háttaði til að bróðir hans var í hópi Íslendinganna í Ísrael.

4. Endurfundir eftir 74 ára aðskilnað
Í janúar urðu ákaflega skemmtilegir og heldur óvenjulegir endurfundir, þegar Helga R. Einarsdóttir á Selfossi fékk aftur í hendurnar dúkku sem hún hafði týnt 74 árum áður.

5. Grímur veiddi stærsta lax aldarinnar
Grímur Arnarson á Selfossi setti heldur betur í stórlax í ágúst þegar hann var við veiðar við Tannastaði, neðst í Soginu. Hann var 34 pund og sá stærsti sem veiðst hefur á Íslandi á þessari öld.

6. Sunnlensku fjallkonurnar 2023
Það ríkir alltaf spenna fyrir því að sjá hverjar eru fjallkonurnar á þjóðhátíðardaginn. Sunnlenska.is safnaði saman myndum af nokkrum glæsilegum sunnlenskum fjallkonunum í ár.

7. Rúður og speglar brotnuðu í björgunarsveitarbíl
Óvæntur hvellur í veðrinu um hásumar kom mörgum í opna skjöldu. Björgunarsveitarmenn sem voru á vaktinni undir Eyjafjöllum fengu að finna fyrir því þegar rúður og speglar í bíl þeirra brotnuðu í einni vindhviðunni.

8. Tólf spurningar – og svör – frá íbúafundinum
Skuldastaða Sveitarfélagsins Árborgar veldur íbúum áhyggjum og í apríl var haldinn fjölmennur íbúafundur þar sem málin voru skýrð. Íbúum gafst kostur á að senda inn spurningar og birti sunnlenska.is svörin við þeim helstu.

9. „Ein glæsilegasta byggingavöruverslun í Evrópu“
Í nóvember opnaði Húsasmiðjan formlega nýja og glæsilega verslun í 5.000 fermetra nýbyggingu við Larsenstræti 6 á Selfossi. Sunnlenska.is kíkti í heimsókn.

10. Seldu húsið sitt til að opna staðinn
Guðný Sif Jóhannsdóttir og Árni Bergþór Hafdal Bjarnason opnuðu veitingastaðinn Fröken Selfoss í september. Blaðamaður sunnlenska.is þessi glaðlegu hjón þar sem þau voru að taka límmiðann af útidyrahurðinni á staðnum og opna um leið dyrnar fyrir fólki.

Fyrri greinFór á þjálfaranámskeið í Sviss með Ólympíustyrk
Næsta greinAthugull starfsmaður kom í veg fyrir stórtjón