Mest lesnu fréttir ársins 2016

Nú árið er alveg að verða liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka. Meðal mest lesnu frétta ársins voru fréttir af ferðamönnum, náungakærleik, áhugaverðu fólki og lottóvinningum, svo eitthvað sé nefnt.

1. Á fimmtu milljón safnaðist fyrir Ágústu
Ágústa Arna lamaðist í slysi á Selfossi í ágúst þegar hún féll rúmlega sex metra niður um op á neyðarútgangi. Ágústa er kraftaverkakona og á marga góða að en meðal annars var haldið fyrir hana styrktarkvöld þar sem á fimmtu milljón króna safnaðist. Í tilefni áramótanna má benda á að söfnunarreikningurinn er ennþá opinn, 0325-13-110203 og er kennitala hennar 270486-3209.

2. Bannað að gista utan tjaldsvæða í Árborg
Hún var góð sagan sem séra Axel setti á Facebooksíðuna hjá Magnúsi Hlyni. Bæjarstjórn Árborgar breytti lögreglusamþykkt sinni á árinu svo nú er ferðamönnum í tjöldum, húsbílum og fleira bannað að gista utan tjaldsvæða í sveitarfélaginu.

3. Skoða byggingu knattspyrnuhúss á Selfossi
Forsvarsmenn knattspyrnudeildar Selfoss hafa kynnt hugmyndir um byggingu knattspyrnuhúss á Selfossi. Að líkindum mun slíkt hús ekki kosta meira en 200 milljónir króna. Þar af segjast forsvarsmenn knattspyrnumála á Selfossi geta útvegað 30 milljónir króna, að mestu úr eigin sjóði og með þátttöku KSÍ. Miðað við viðbrögð við fréttinni þá hlýtur þörfin að vera einhver.

4. Áhuginn kviknaði á meðgöngunni
Tvö ár eru síðan Fanney Svansdóttir byrjaði að hanna og prjóna barnaföt undir merkinu Ylur. Síðan þá hefur merkið vaxið og dafnað og hefur hönnun Fanneyjar hlotið verðskuldaða athygli, bæði hér heima og erlendis.

5. 86 milljóna króna miði í Samkaupum
Í janúar kom 86,3 milljón króna vinningur á Víkingalottómiða sem seldur var í verslun Samkaup Úrval á Selfossi. Það var ánægður eldri borgari á Suðurlandi sem var hinn heppni og ætlaði hann að deila vinningnum með börnum sínum og því voru það margar fjölskyldur sem nutu góðs af þessum glæsilega Víkingalottóvinningi. http://nyr.sunnlenska.is/frettir/18360.html

6. Dagbjartur dúxaði í FSu
Dagbjartur Sebastian Österby Christensen dúxaði í Fjölbrautaskóla Suðurlands við brautskráningu á vorönn í maí. Dagbjartur hlaut viðurkenningu frá Hollvarðasamtökum FSu en hann hlaut að auki viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur í dönsku, stærðfræði, náttúruvísindagreinum og raungreinum.

7. Óskar og Filip fengu veglega jólagjöf
Félag sjúkraflutningamanna á Suðurlandi afhenti á Þorláksmessu samtals 800 þúsund króna peningagjafir til tveggja fjölskyldna. Það voru þeir Óskar Louis Killa í Hveragerði og Filip Wladyslaw Banczak á Flúðum sem fengu styrkina góðu að þessu sinni.

8. Árborg safnar fyrir skammtímavistunina
Liðsmenn Knattspyrnufélags Árborgar halda áfram að gefa til samfélagsins en í ár söfnuðu þeir fyrir sjónvarpi fyrir skammtímavistunina í Álftarima 2 á Selfossi. Söfnunin gekk vel og var sjónvarpið afhent í lok september.

9. Heitast á Suðurlandi í dag
Sumarið á Suðurlandi var hlýtt og bjart að langmestu leiti. Hitatölurnar urðu hvað hæstar þann 27. júlí þegar mælar sýndu 29°C í forsælu víða á Suðurlandi.

10. Sveitarfélagið mögulega skaðabótaskylt
Sundlaugargestir gerðu réttilega talsverðar athugasemdir við hálar gólfflísar í Sundhöll Selfoss. Þar var nokkuð um óhöpp þar sem fólk datt á flísalögðu gólfi nýju viðbyggingarinnar. Óhöppin voru sum alvarleg. Á endanum voru hálu flísarnar fjarlægðar og nýtt gólfefni sett í þeirra stað.