Mest lesnu fréttir ársins 2015

Nú árið er alveg að verða liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka. Meðal mest lesnu frétta ársins voru fréttir af skemmtanalífi, veðurfari, búpeningi, eldsvoðum, framkvæmdum og mannaráðningum.

1. 800Bar á Selfossi lokað
800Bar á Selfossi var lokað í lok maí. Það var ákveðinn skellur fyrir skemmtanaþyrsta Sunnlendinga. Eiður Birgisson, eigandi 800Bars, sagði í viðtali við sunnlenska.is að það væri vanmetið að vera heima um helgar og sofna snemma á laugardagskvöldi yfir klassískri mynd á Stöð 2.

2. Hús nötruðu og rafmagn fór af
Rafmagnslaust varð á stærstum hluta Suðurlands að kvöldi 8. janúar eftir að eldingu sló niður í spennistöð á Hvolsvelli. Rangæingar urðu heldur betur varir við þrumuna og íbúðarhúsin á Hvolsvelli nötruðu.

3. Kvíga skellti sér í heita pottinn
Það þurfa allir að vera fínir á þjóðhátíðardaginn og það átti líka við um kvíguna frá Hrafnkelsstöðum í Hrunamannahreppi sem skellti sér í bað hjá Helgu og Guðjóni á Melum þann 16. júní. Þetta var mjög snöggt bað – en Guðjón náði mynd af kvígunni sem vakti mikla lukku.

4. „Verðum framundir morgun að slökkva í þessu“
„Aðkoman að þessu var ljót, það var mikill eldur í húsinu og mikill mengaður reykur,“ sagði Pétur Pétursson, aðstoðarslökkviliðsstjóri, í samtali við sunnlenska.is á vettvangi stórbrunans í Plastiðjunni á Selfossi að kvöldi 23. nóvember.

5. World Class opnar á Selfossi 2. janúar
Þann 2. október settust Bjössi í World Class, Ásta hjá Árborg og Gylfi hjá JÁVERK við samningaborðið og undirrituðu samninga sem tryggðu það að World Class myndi opna heilsurækt í Sundhöll Selfoss í upphafi árs 2016. Undirbúningurinn hefur gengið vel og mun stöðin opna þann 2. janúar kl. 14.00.

6. Guðrún ráðin skólastjóri í Þorlákshöfn
Eyrbekkingurinn Guðrún Jóhannsdóttir var ráðin skólastjóri Grunnskólans í Þorlákshöfn úr hópi sjö umsækjenda í lok mars. Hún tók til starfa þann 1. ágúst en þá lét Halldór Sigurðsson af störfum eftir 27 ára starf sem skólastjóri.

7. Gríðarlegur eldur á Selfossi
Allt tiltækt slökkvilið Brunavarna Árnessýslu var kallað út að kvöldi 7. júní eftir að eldur kom upp í röralager verksmiðjunnar Set á Selfossi. Gríðarmikinn og svartan reyk lagði yfir bæinn og rýma þurfti nokkrar götur. Eldurinn kviknaði út frá fikti tveggja ungra drengja.

8. Hafnfirðingar loka Hellisheiði og Þrengslum
Hellisheiði og Þrengslum var margoft lokað í upphafi árs. Mikla athygli vakti þegar Sunnlenska greindi frá því að það væri vaktstöð Vegagerðarinnar í Hafnarfirði sem tæki ákvörðun um lokanirnar í samráði við lögreglu.

9. Mun bjóða upp á útsýnisflug og leiguflug
Nýtt flugfélag, Arctic Wings, var stofnað á Selfossi á árinu. Höfuðstöðvar félagsins flugaðstaða og þjónusta við flugvélar eru á Selfossflugvelli. „Við höfum fundið fyrir vöntun á afþreyingu fyrir ferðamenn hér í þessum landshluta, og með þessu er verið að bregðast við slíku,“ sagði Kristján Bergsteinsson, framkvæmdastjóri, í samtali við Sunnlenska.

10. Sandskaflar á veginum og klæðning farin að losna
Fárviðri gekk yfir landið þann 14. mars og varð tjón á mannvirkjum víða við suðurströndina, meðal annars við Óseyrarbrú þar sem malbik flettist upp á Þorlákshafnarvegi. Þá splundraðist bjálkahús á Þingvöllum. Veðrið var reyndar mikið í fréttum á árinu og önnur mikið lesin frétt var af lægðinni Diddú sem gekk yfir landið þann 7. desember.

Fyrri grein„Tilfinningin að tilheyra liði er það sem stendur upp úr”
Næsta greinUppskeruhátíð ÍMÁ í kvöld