Mest lesnu fréttir ársins 2013

Í mest lesnu fréttum ársins á sunnlenska.is kennir ýmissa grasa. Ostastrákurinn Gotti bar þar höfuð og herðar yfir aðra en hvarf hans af stalli sínum við Sundhöll Selfoss í mars vakti mikla athygli.

1. Gotti snýr heim
Ostastrákurinn Gotti var numinn á brott af stalli sínum í Sundhöll Selfoss í mars en gaf sig síðan fram viku síðar. Strákurinn hafði farið á djammið en bað forráðamenn sína fyrirgefningar á því að hafa strokið að heiman.

2. Með 9,88 í meðaleinkunn
Gísli Þór Axelsson sló öllum stúdentum Fjölbrautaskóla Suðurlands – frá upphafi – við þegar hann brautskráðist frá skólanum í desember. Gísli var með meðaleinkunnina 9,88 en sagan segir að tvær níur í íþróttum hafi dregið einkunnina hjá Gísla Þór niður – og þó er hann landsliðsmaður bæði í handbolta og körfubolta.

3. Dekkjaþjófurinn í Þorlákshöfn
Í nóvember var rándýrum dekkjagangi stolið af lóð Bíliðjunnar í Þorlákshöfn. Þjófurinn náðist á mynd sem birtist á sunnlenska.is. Vakthafandi lögreglumenn á Selfossi upplýstu málið skömmu síðar.

4. Íbúðargámur fyrir útigangsmann
Bæjarráð Árborgar samþykkti í nóvember að taka á leigu íbúðargám frá Gámaþjónustunni til að leysa húsnæðisvanda útigangsmanns á Selfossi. Almenn ánægja var með þetta framtak, ekki síst hjá útigangsmanninum sjálfum.

5. Magnús svekktur og sár
Jákvæði fréttamaðurinn Magnús Hlynur Hreiðarsson var ekki alveg jafn jákvæður í byrjun október þegar hann neyddist til að segja upp störfum hjá Dagskránni. Hann var fyrst og fremst svekktur og sár en náði vopnum sínum fljótlega í kjölfarið og hefur farið á kostum síðan í fréttum Stöðvar 2 og Bylgjunnar.

6. Skógarfoss/Skógafoss
Rangárþing eystra og Vegagerðin fóru aðeins fram úr sér þegar sett var upp skilti sem benti á Skógarfoss. Eftir að sunnlenska.is birti frétt um málið var því snarlega kippt í liðinn og fækkað um eitt err á skiltinu.

7. Góðar gjafir á aðfangadag
Sjúkraflutningamenn og –konur á Selfossi eru landsþekkt fyrir árlega dagatalssölu sína. Eins og síðustu ár nutu tvær fjölskyldur ágóðans af þessu frábæra átaki og fengu afhenta peningagjöf og fleiri gjafir á aðfangadag.

8. Reykdal Máni knésetti ríkið
Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi. Foreldrar Reykdals Mána höfðuðu mál fyrir hans hönd í héraðsdómi þar sem íslenska ríkinu var stefnt. Peyinn vann málið og nú þarf mannanafnanefnd að éta hattinn sinn.

9. Hefur hendur í hári Svía
Athafnafólkið Unnur Ósk Magnúsdóttir og Gústaf Lilliendahl lokuðu hárgreiðslustofunni Stofunni á Selfossi í maí og fluttu til Svíþjóðar. Þar biðu þeirra ný ævintýri en Gústaf hefur nú hendur í hári Svía hjá hárgreiðsluveldinu Larsson&Lange. Það er ekki ólíklegt að Svíinn sé betur tilhafður um hárið í kjölfarið.

10. Selfossbíó sló í gegn
Axel Ingi Viðarsson opnaði Selfossbíó á nýjan leik í júlí. Framtak bíókónganna ungu hefur slegið í gegn og Sunnlendingar hafa flykkst í bíó allt árið. Svo selja strákarnir líka ennþá popp og kók.

Fyrri greinJólabarn á þriðja degi jóla
Næsta greinLést eftir umferðarslys á Hellisheiði