Mest aukning umferðar á Hellisheiði

Á Hellisheiði. Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Umferðin hringveginum í janúar jókst um 5,9 prósent miðað við sama mánuð á síðast ári. Aukningin var langmest á Suðurlandi og þar sker teljarinn á Hellisheiði sig úr með tæplega 12% aukningu á milli ára.

Í frétt á vef Vegagerðarinnar segir að umferðaraukningin komi svolítið á óvart, enda var tíðarfar frekar erfitt í mánuðinum og þörf á lokunum fjallvega tíðari en oft áður. Með þessu var sett nýtt met í fjölda bifreiða á hringveginum í janúar frá upphafi þessara mælinga.

Aukning varð í öllum landssvæðum en mest jókst umferðin um Suðurland eða um rúmlega 10%. Minnst jókst umferð um Vesturland eða um 2%.

Athygli vekur að umferðin um teljarasnið á Hellisheiði jókst mest allra mælipunkta. Að meðaltali óku 6.709 bílar á dag yfir teljarann á Hellisheiði, en þeir voru 5.910 að meðaltali á dag í janúar í fyrra. Þetta er 11,9% aukning á milli ára.

Árin 2013 til 2015 var janúarumferðin á Hellisheiði í kringum 4.300 bílar að meðaltali á dag, en umferðin hefur aukist í stórum stökkum á milli ára frá árinu 2016.

Fyrri greinHafa ekki fundið grímu­klædda árásarmanninn
Næsta greinKristínarkaka (hnetulaus)