Merkel heimsótti Hellisheiðarvirkjun

Bjarni Bjarnason og Brynhildur Davíðsdóttir taka á móti Angelu Merkel við Hellisheiðarvirkjun í morgun. Ljósmynd: OR/Eva Björk

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, lagði leið sína í Hellisheiðarvirkjun í morgun til að kynna sér jarðhitanýtingu Íslendinga og þróunarverkefni tengd henni, ekki síst kolefnisbindinguna við Hellisheiðarvirkjun.

Brynhildur Davíðsdóttir, stjórnarformaður OR, og Bjarni Bjarnason forstjóri tóku á móti kanslaranum og var síðan sest við spjall yfir kaffi og kleinum. Ýmsir pólitískir og efnahagslegir ráðgjafar kanslarans voru með í för. Þau Bjarni, Brynhildur og Hildigunnur H. Thorsteinsson, stjórnarformaður ON, ræddu jarðhitanýtinguna almennt og Edda Sif Pind Aradóttir kynnti Merkel kolefnisbindingarverkefnið CarbFix, sem rekið er við virkjunina. Einn angi þess rannsóknar- og þróunarverkefnis teygir sig til Þýskalands þar sem unnið er með Tækniháskólanum í Bochum.

Kanslarinn sýndi verkefninu og tækifærum þess mikinn áhuga en hún er einmitt að ræða loftslagsmál við norræn starfssystkin sín, sem funda í Reykjavík í dag. Spurði hún sérstaklega út í hvort steinrenna megi koltvíoxíði víðar um veröldina en hér á landi og fékk jákvætt svar við því.

Auk ráðafólks Orkuveitu Reykjavíkur og Orku náttúrunnar komu einnig til samtalsins Kristín Vala Matthíasdóttir framkvæmdastjóri auðlinda hjá HS Orku. Auðlindagarðurinn á Reykjanesi er einmitt eitt skýrasta dæmið hér á landi um fjölþætta nýtingarmöguleika jarðhitans. Þá sagði Benedikt Stefánsson viðskiptaþróunarstjóri Carbon Recycling International frá starfsemi fyrirtækisins á Reykjanesi þar sem unnið er eldsneyti úr útblæstri jarðgufuvirkjunar.

Fyrri greinStór skriða féll í Reynisfjöru
Næsta greinTómatar og Tangó í Friðheimum