Merkar miðaldaminjar í landi Móeiðarhvols

Í forgrunni er gerði með fornum tóftum og í því miðju er hruninn manngerður hellir. Fjær sjást umfangsmikil akurgerði sem ná yfir um 4 ha svæði. Ljósmynd/Oddarannsóknin

Samkvæmt máldaga Oddakirkju frá 1270 átti kirkjan þá meðal annars jörðina Bergvað. Jörðin fór í eyði á 19. öld og furðu litlar heimildir hafa varðveist um sögu hennar. Er hún nú hluti af landi Móeiðarhvols.

Fyrr í sumar vann Fornleifastofnun Íslands aðalskráningu minja á báðum þessum jörðum fyrir Rangárþing eystra. Í landi Bergvaðs reyndust mjög umfangsmiklar og merkar minjar sem virðast vera frá miðöldum. Meðal fornlegra minja má nefna fjölda akurgerða sem ná yfir um 4 ha svæði, forn garðlög og gerði. Innan annars gerðisins á svæðinu er fallinn manngerður hellir en einnig er fjöldi lokaðra og fallinna hella í túni Bergvaðs.

„Umfang þessara minja er slíkt að grunur vaknar óneitanlega um að þau tengist framleiðslu fyrir höfðingjana í Odda, ekki síst á korni,“ segir í færslu á Facebooksíðu Oddarannsóknarinnar, en þar er greint frá þessum merka fundi.

Um þessar mundir er unnið að kortlagningu ferðaleiða í nágrenni Odda. Forn og fjölfarin leið lá úr austri eftir sunnanverðri Móeiðarhvolsöldu, meðfram túngarði Bergvaðs og niður að samnefndu vaði sem var upphaflega sunnan við Barnakletta. Við leiðaskráninguna uppgötvaðist áður óþekkt og mjög fornlegt bæjarstæði í landi Oddhóls á vesturbakka Eystri-Rangár, móts við Bergvað. Hefur það tilheyrt Odda á sínum tíma líkt og önnur býli innan heimalands höfuðbólsins.

Annað af tveimur gerðum á minjasvæðinu á Bergvaði. Innan þess eru fornar tóftir og lítil akurgerði. Ljósmynd/Oddarannsóknin

Fyrri greinHvernig endurreisum við samfélag?
Næsta grein„Suðurlandið er mikil matarkista“