„Mér fannst vanta sérfræðibúð“

Axel Ingi Viðarsson í Midgard Outfitters á Selfossi. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Verslunin Midgard Outfitters að Austurvegi 11 á Selfossi er ein af þessum verslunum sem eru stærri að innan en þær eru að utan. Þessi fallega verslun býður upp á mikið og gott úrval af veiðivörum og útivistarfatnaði, eitthvað sem bæði heimamenn og erlendir ferðamennirnir hafa heldur betur tekið opnum örmum.

„Við opnuðum síðustu vikuna í nóvember en upphaflega opnuðum við sumarið 2020, Veiðibúðina, í sama húsnæði og Dýraríkið. Það gerðum við bara til að prufa að selja veiðidót en svo var eftirspurnin svo mikil að við tókum alltaf meira og meira pláss af Dýraríkinu og Dýraríkið er í það miklum vexti að það varð að fá plássið sitt aftur og Veiðibúðin var í það miklum vexti að það var um að gera að fara í annað húsnæði,“ segir Axel Ingi Viðarsson, einn eiganda Midgard Outfitters, í samtali við sunnlenska.is.

Mikið úrval af útivistarvörum en engar íþróttavörur
Til að réttlæta það að búa til annan rekstur í kringum verslunina var ákveðið að bæta við vöruúrvalið. „Við tókum þá ákvörðun að það yrðu útivistarvörur. Svo verðum við líka með eitthvað af golfvörum í sumar. Við erum að vinna í því núna að bæta við fleiri merkjum. Við erum með Patagonia, Marmot og Scarpa skóna og svo er okkar fókus á að þjónusta útivistarvörur. Það eru engar íþróttavörur í versluninni, það eru aðrar verslanir á Selfossi með þær og núna ætlum við bara að fókusa á þetta,“ segir Axel.

Midgard Outfitters hafa ekki farið varhluta af þeim mikla fjölda af erlendu ferðamönnum sem hafa lagt leið sína á Suðurlandið að undanförnu. „Það er mikið um túrista hjá okkur, það er alveg frábært. Túristarnir eru helst að kaupa mannbroddana núna og svo náttúrulega skó, úlpur og eitthvað svona. Á sumrin fáum við líka mikið af túristum að kaupa veiðidót, það er mikið af laxveiðimönnum sem kemur til okkar á leiðinni hérna austur.“ Talandi um sumarið þá segir Axel að þau verði einnig með allt í útileguna í sumar – tjöld, svefnpoka og meira.

„Við erum í samstarfi við Fjallakofann þannig að ef einhver kemur með fyrirspurn um einhver stór tæki, skíði eða eitthvað dýrara, þá sérpöntum við það og það er komið daginn eftir. Þannig að það þarf ekkert alltaf að fara í bæinn. Við erum með nákvæmlega sama verð og Fjallakofinn, þannig að það er ekkert sem réttlætir það að fara til Reykjavíkur. Það á ekkert að vera dýrara hér – verslum í heimabyggð.“

Túristarnir eru að bjarga miklu
Óveðurshelgin skömmu jól setti eðlilega strik í reikninginn varðandi jólasöluna en Axel lætur þó deigan ekki síga. „Viðtökurnar hafa verið mjög góðar síðan við opnuðum hér. Við misstum reyndar stærstu verslunarhelgi ársins út eins og öll fyrirtæki á Suðurlandi – síðustu helgina fyrir jól – þannig að það varð ekki eins og við höfðum búist við. En svo þremur dögum fyrir jól var brjálað að gera. Við erum kannski ekki að opna á besta tíma, rétt fyrir jól og lendum svo beint í mánuðinum sem fólk er að borga Visa reikninginn sinn. En þá höfum við túristana.“

Mikið spurt um lundana
Sem fyrr segir hefur verið mikið um erlenda ferðamenn á Selfossi undanfarnar vikur og mánuði. „Það er mikið af Þjóðverjum hérna, fólki sem hefur verið mikið hérna áður og ákveðið að koma aftur til þess að taka annan hring um landið, sem er geggjað. Það er frábært að fólk hugsi „Ókei, förum til Íslands. Það var sturlað síðast, klárum að sjá meira,“ það er frábært fyrir íslenska ferðaþjónustu. Þannig að planið var að fara að bæta við einhverjum túristavarningi. Við höfum alveg verið spurð um lundana því að við erum með lunda til sýnis,“ segir Axel en þess má geta að hann er lærður hamskeri og er dágott fuglasafn til sýnis í Midgard Outfitters – nokkra af þeim fuglum stoppaði hann sjálfur upp.

Axel segir að það hafi alls ekki alltaf verið draumurinn að vera með veiðibúð. „Mér fannst vanta sérfræðibúð í þessu, þannig að ég ákvað bara að opna svoleiðis og ég sé ekki eftir því í dag.“

Í Midgard Outfitters er hægt að finna vörur fyrir bæði kynin og eru skyrturnar sú vara sem selst hvað mest af. „Svo selst náttúrulega mikið af innri fatnaði, þéttar og góðar peysur, húfur, vettlingar, sokkar, skór. Þetta fer allt í bland.“

Nýstárlegar veiðiaðferðir
Sumarið leggst mjög vel í Axel. „Ég hef fulla trú á því. Veiðin byrjar 1. apríl en laxveiðiárnar opna um 20. júní. Þannig að þetta byrjar um mánaðarmótin mars, apríl en svo springur þetta af stað í júní. Þá er þetta komið á þvílíkt flug. Þá erum við bæði með bleikjuveiðmennina, sjóbirtings- og svo bætast laxveiðimennirnir inn í þetta þannig að þá er maður með allan hópinn.“

„Við höfum verið að selja orma og makríl en það er önnur veiði – ekki fluguveiði. En svo hefur maður alveg heyrt af köllum sem hafa mætt í veiðina og sett orm á fluguna og það hefur virkað – ef það hefur ekki veiðst neitt þá hafa þeir laumað ormi á fluguna. Það er kannski ekki fagmannlegasta veiðin en hún er í lagi,“ segir Axel og hlær.

Oft erfitt að vera veiðimaður á þurru landi
Axel er sjálfur mikill veiðimaður sem getur verið erfitt þegar hann þarf líka að standa vaktina í versluninni. „Ég reyni að fara eins mikið og ég get sjálfur í veiði en það er ekki sniðugt fyrir laxveiðimann að vera með verslun – það er hræðilegt,“ segir Axel og hlær dátt. „En ég vel mér daga til að fara. Ég gæti veitt miklu meira ef ég þyrfti ekki að standa vaktina í búðinni. Ég reyni að vera hérna sem mest sjálfur á vaktinni en svo er ég með flotta starfsmenn á sumrin sem koma inn,“ segir Axel og bætir því við að þau hjá Midgard Outfitters leggi mikla áherslu á að veita góða þjónustu og að starfsmennirnir hafi mikla þekkingu á vörunum sem þeir eru að selja.

„Hvetjum fólk til að versla í heimabyggð, koma og skoða. Við hlökkum til að taka á móti öllum,“ segir Axel að lokum.

Veiðimennirnir bíða spenntir eftir sumrinu og þeir finna flugurnar í Midgard Outfitters. sunnlenska.is/Jóhanna SH
Fyrri greinGuðmundur sýnir undir stiganum
Næsta greinAftur gul viðvörun