Menntuðum leikskólakennurum boðið upp á flutningsstyrk

Byggðaráð Rangárþings ytra hefur samþykkt að vegna erfiðleika við að fá menntaða leikskólakennara til starfa á leikskólum sveitarfélagsins verði leikskólastjórum heimilt að greiða sérstaka tímabundna flutningsstyrki.

Heimildirnar eru eingöngu hugsaðar í þeim tilvikum þar sem leikskólastjóri telur þær nauðsynlegar til að geta mannað stöður innan leikskólans og ber að gera ráð fyrir þessum kostnaði í fjárhagsáætlun leikskólans.

Flutningsstyrki má eingöngu greiða til menntaðra leikskólakennara og viðkomandi þarf að vera ráðinn í fullt starf hjá leikskólanum.

Flutningsstyrkurinn er í formi niðurgreiðslu á húsaleigu í húsnæði sveitarfélagsins og má aldrei nema meira en 50% af raunleigu á hverjum tíma eða að hámarki 35.000 kr.

Fyrri grein„Erum einu skrefi nær markmiðinu“
Næsta greinMjög alvarlegt umferðarslys við Pétursey