Mennta- og barnamálaráðherra heimsótti fjölskyldusvið Árborgar

Ásmundur Einar Daðason, Heiða Ösp Kristjánsdóttir, Kristín Björk Jóhannsdóttir og Þorsteinn Hjartarson. Ljósmynd/Aðsend

Í gær var fjölmennur kynningar- og umræðufundur haldinn í Grænumörk á Selfossi um innleiðingu farsældarlaganna í Árborg. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra sótti fundinn ásamt fríðu föruneyti úr ráðuneytinu og Barna- og fjölskyldustofu.

Auk bæjarstjóra, sóttu margir þjónustuveitendur í Árborg fundinn frá grunnskólum, leikskólum, félagsþjónustu, skólaþjónustu, frístundaþjónustu, FSu og HSu.

Eftir að Heiða Ösp Kristjánsdóttir, deildarstjóri félagsþjónustu sem var fundarstjóri, hafði boðið fundarmenn velkomna rakti Þorsteinn Hjartarson, sviðsstjóri fjölskyldusviðs, stuttlega sögu skipulagsbreytinga í skóla- og velferðarmálum sveitarfélagsins á undanförnum árum.

Kristín Björk Jóhannsdóttir, verkefnastjóri farsældarteymis, kynnti áherslur, verklag og farsældarskref fjölskyldusviðs með virkri þátttöku nokkurra þjónstuveitenda sem voru þau Sigþrúður Birta Jónsdóttir, teymisstjóri barnateymis, Gunnar Eysteinn Sigurbjörnsson, deildarstjóri frístundaþjónustu, Lucinda Árnadóttir, yfirsálfræðingur skólaþjónustu, Harpa Kristín Hlöðversdóttir, sérkennslustjóri Árbæjar, Anna Guðríður Gunnarsdóttir, verkefnastjóri ung- og smábarnaverndar á HSu, Sædís Ósk Harðardóttir, deilarstjóri sérdeildar Suðurlands, Bryndís Guðmundsdóttir, félagsráðgjafi hjá barnavernd og Olga Lísa Garðarsdóttir, skólameistari FSu.

Eftir kynninguna voru líflegar umræður og í lok fundar ávarpaði Ásmundar Einar Daðason, ráðherra, samkomuna þar sem hann lýsti yfir ánægju sinni með fundinn og þau stóru farsældarskref sem fjölskyldusvið Árborgar hefur nú þegar stigið í innleiðingu farsældarlaganna.

Einnig brást ráðherra við spurningum og ábendingum sem fram höfðu komið í umræðum. Það var samdóma álit fundarmanna að fundurinn hefði bæði verið góður og gagnlegur.

Fundargestir í Grænumörkinni. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinSögur úr sveitinni í Tryggvaskála
Næsta greinVatnsgæðamælingar í Þingvallavatni