Mennta- og barnamálaráðherra heimsótti Árborg

Skólastjórnendur kynntu kennsluhætti Stekkjaskóla sem byggir á teymiskennslu og sögðu frá þróunarverkefninu Stekkur til framtíðar - að byggja upp lærdómssamfélag í nýjum grunnskóla. Ljósmynd/Árborg

Í síðustu viku kom Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra í heimsókn í Árborg.

Hann byrjaði á að heimsækja Stekkjaskóla og kynnti sér þar húsnæði skólans og innra starf. Skólinn sem er yngsti skóli landsins, hóf starfsemi sína haustið 2021 en skólahúsnæði var tekið í notkun í mars á þessu ári.

Ásmundur og starfsfólk í mennta- og barnamálaráðuneytinu fengu leiðsögn um húsnæði skólans frá skólastjórnendum og kynningu frá nemendum sem tóku vel á móti gestunum og kynntu m.a. fyrir þeim námsefni vetrarins.

Eftir vel heppnaða heimsókn í Stekkjaskóla fundaði Ásmundur Einar ásamt Fjólu St. Kristinsdóttur, bæjarstjóra, og stjórnendum á fjölskyldusviði. Á þeim fundi fékk Ásmundur Einar kynningu á þróunarverkefni á fjölskyldusviði um uppbyggingu á verkefni fyrir ungt fólk í Árborg. Mikil gróska er í faglegu starfi fyrir ungt fólk og var fundurinn árangursríkur.

Myndir frá heimsókninni má sjá á heimasíðu Árborgar.

Fyrri greinStaða bænda veldur sveitarstjórn þungum áhyggjum
Næsta grein„Þakklát og ánægð“