Mennirnir voru afar ógnandi

„Árásarmennirnir skipuðu okkur að leggja frá okkur símana. Tveir félaga minna neituðu því og fengu þá þétt högg í andlitið.

Símalausir gátum við ekki gert vart við okkur og enginn í húsinu varð áskynja um neitt.“

Þetta segir Fannar Bogason, sem varð fyrir þeirri lífsreynslu á laugardagskvöld að þrír ungir menn réðust inn í íbúð sem hann leigir í fjölbýlishúsi ásamt félaga sínum. Þar voru þeir staddir, og tveir aðrir, þegar árásarmennirnir birtust.

Fannar segir mennina þrjá hafa verið afar ógnandi í tilburðum og tali. „Þeir gengu beint hingað inn og fyrst töldum við þetta vera eitthvert grín. En svo drógu þeir skyndilega upp hnífa og þá varð okkur alvara málsins fyrst ljós. Við fórum að hríðskjálfa og sátum lengi undir formælingum strákanna um að þeir ætluðu með okkur út í sveit og drepa okkur,“ segir Fannar, sem telur mennina hafa verið inni í íbúðinni í um það bil fjörutíu mínútur.

Á meðan létu þeir greipar sópa. Höfðu með sér á brott tölvur og ýmsan tilheyrandi búnað, fatnað og fleira. Á leiðinni út úr húsinu misstu þeir farsíma en með honum gátu þeir sem urðu fyrir árásinni gert vart við sig.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Fyrri greinVill byggja listamannaíbúðir á Stokkseyri
Næsta greinArna valin fimleikakona ársins