Mennirnir grófu sig í fönn

Lögreglan á Suðurlandi ásamt björgunarsveitum af Suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu stóðu í gærkvöld og nótt í leit að tveimur erlendum ferðamönnum sem voru við göngu á Grímsfjalli.

Þeir sendu frá sér neyðarboð í gegnum neyðarsendi sem þeir höfðu meðferðis en mennirnir höfðu skilað inn ferðaplani hjá Safetravel svo góðar upplýsingar voru um þá og búnað þeirra.

Erfitt veður var á jöklinum og sóttist ferðin seint, en þeir fundust um þrjúleytið í nótt þar sem þeir höfðu grafið sig í fönn. Þeir voru heilir á húfi, en kaldir.

Verið er að flytja þá til byggða þar sem lögregla mun ræða við þá, en ferðalagið gengur seint þar sem færið er erfitt og um langan veg að fara.

Fyrri greinHrunamenn unnu héraðsmótið í tuttugasta sinn
Næsta greinLeitað að vitnum að banaslysi