Menningarstúka á Eyrarbakkavelli

Fyrsta hlutanum af menningarstúkunum sem Sveitarfélagið Árborg festi kaup á í vetur var komið fyrir á Eyrarbakkavelli í dag.

Sveitarfélagið keypti stúkurnar í vetur eftir tillögu Björns Inga Bjarnasonar, menningarnefndarmanns. Stúkurnar eru smíðaðar í fangelsinu á Litla-Hrauni en um er að ræða þrisvar sinnum 33 trébekki. Verða með þessu til þrjú sett, hvert sett með 99 sætum, samtals 297 sæti.

Hvert sett verður staðsett í byggðakjörnunum þremur; Eyrarbakka, Stokkseyri og Selfossi en hægt verður að færa þau á milli staða eftir því sem þörf er á. Hægt er að nota menningarstúkurnar við hinar ýmsu útisamkomur og mannamót; svo sem við íþróttavellina við ströndina, keppnis- /æfingavelli á Selfossi og á hinum fjölmörgu hverfa- og bæjarhátíðum sem eru í Sveitarfélaginu Árborg. Þá eru ýmsir möguleikar á að nota menningarstúkurnar á samkomum sem eru innandyra.

Áætlaður kostnaður við verkefnið er um 500.000 krónur fyrir hvert sett, samtals um 1,5 milljón króna.

Stúkurnar voru notaðar í fyrsta sinn í kvöld á æfingaleik Knattspyrnufélags Árborgar og Ungmennafélags Álftaness og vöktu þær gríðarlega hrifningu leikmanna og áhorfenda enda hefur áhorfendaaðstaða við völlinn ekki verið til staðar hingað til.

Fyrri greinÞórsarar bognuðu og Grindavík sigraði
Næsta greinGrýlupottahlaup 3 – Úrslit