Bæjarráð Árborgar samþykkti á fundi sínum í vikunni að auglýsa fokhelda menningarsalinn í Hótel Selfossi til sölu.
„Vinna og rýni undanfarinna ára að uppbyggingu á Menningarsal Suðurlands á Selfossi hefur verið í góðu samstarfi sveitarfélagsins og menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytisins. Sú vinna hefur leitt af sér að nú sé tækifæri til að skoða aðra valkosti á Selfossi, sem gætu nýst betur sem framtíðarhúsnæði fyrir Menningarsal Suðurlands,“ segir Bragi Bjarnason, bæjarstjóri Árborgar, í samtali við sunnlenska.is.
„Það eru mörg spennandi tækifæri falin fyrir aðra starfsemi í núverandi húsnæði og því var ákveðið að auglýsa það til sölu. Það er hins vegar skýr vilji Sveitarfélagsins Árborgar að halda áfram vinnu við uppbyggingu á menningarsal og nokkrir spennandi valkostir verða skoðaðir betur á næstu mánuðum,“ bætti Bragi við.
Menningarsalurinn í Hótel Selfossi er rúmlega eittþúsund fermetra rými sem var á sínum tíma byggt sem leikhús. Salurinn hefur aldrei verið innréttaður og hefur staðið fokheldur í 43 ár.
Sveitarfélagið mun óska eftir tilboðum í húsnæðið og áskilur sér rétt til að hafna öllum tilboðum.


TENGDAR FRÉTTIR:
Menningarsalurinn kláraður árið 2022

