Menningarmánuðurinn fer vel af stað

Menningarmánuðurinn október hófst formlega í Árborg síðastliðinn föstudag þegar afhjúpuð voru söguskilti við Sundhöll Selfoss.

Skiltin sýna framkvæmdasögu Sundhallarinnar frá opnun árið 1960 til dagsins í dag ásamt fjölbreyttum myndum úr leik og starfi þeirra sem hafa nýtt sundlaugina.

Kjartan Björnsson, formaður íþrótta- og menningarnefndar setti mánuðinn og fékk síðan aðstoð nokkurra góðra einstaklinga til að afhjúpa skiltin.

Á laugardag hélt svo Valgeir Guðjónsson tónleika í Saga Music Hall á Eyrarbakka. Tónleikarnir voru einstaklega vel heppnaðir en Valgeir spilaði og söng sín þekktustu lög í blandi við glænýtt efni ásamt því að segja sögur tengdar lögunum.

Menningarmánuðurinn heldur svo áfram en næst á dagskrá er vígsla göngustígsins milli Eyrarbakka og Stokkseyrar en athöfnin fer fram fimmtudaginn 13.október kl. 10:30 á miðjum stígnum milli þorpanna en það er u.þ.b. 1 km vestan við Hraunsá.