Menningaminjar liggja undir skemmdum

Engir fornleifauppgröftur átti sér stað á Suðurlandi þetta sumarið og óvíst með að nokkrir slíkir verði á næsta ári. Minjavörður segir menningarminjar víða liggja undir skemmdum.

Tveggja vikna uppgröftur Bjarna F. Einarssonar fornleifafræðings á Klaustri er nánast það eina sem gert var og er þetta lakasta sumarið af mörgum lökum á þessu sviði. Afraksturinn voru tveir stuttir skurðir.

Að sögn Ugga Ævarssonar, minjavarðar Suðurlands, er þetta mjög bagalegt en menningaminjar liggja víða undir skemmdum á Suðurlandi en svo virðist sem ekkert fé fáist til uppgraftar. Svæði það sem fellur undir skrifstofu Ugga nær frá Selvogi austur að Skeiðarársand.

Segja má að ekki hafi verið fornleifauppgröftur á Suðurlandi síðan lokið var við að grafa í Skálholti 2007 en væntanleg er bók um þann uppgröft. Uggi benti á að þrátt fyrir að þar hefði verið grafið í sex sumur þá væri aðeins búið að grafa niður á 17. öld. Tímabilið fram til landnáms er því eftir í Skálholti sem var höfuðstaður Íslendinga um aldir.

Hafa verður í huga að viðgerð á laug á Laugarvatni og nýtt hús á Stöng falla í raun ekki undir uppgröft en bæði verkefnin hafa verið í vinnslu.

„Auðvitað er þetta dálítið furðulegt en það virðist mjög erfitt að fá fé til slíkra rannsókna. Því miður er það svo að við getum ekki komið með fjármagn á móti og því virðast fornleifafræðingar ekki áhugasamir um að koma,” sagði Uggi.

Ýmsar þreifingar hafa verið varðandi verkefni á Suðurlandi en ekkert hefur verið fastmælum bundið að sögn Ugga.

Fyrri greinAndlát: Sigurður Sigmundsson
Næsta greinLeikskólinn opnaður í Félagslundi