Mennina rak um tvo kílómetra frá landi

Rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurlandi hefur í dag unnið að rannsókn kajaksslyssins við Þjórsárós á laugardagskvöld þar sem tveimur kajakræðurum var bjargað úr sjónum. Annar mannanna lést.

Mennirnir tveir fóru á kajökum frá bökkum þjórsár nokkuð ofan við ósinn og réru að ósnum þar sem þeir komu að landi á vesturbakka árinnar. Þeir fóru síðan út aftur en lentu þá í broti í ósmunnanum og þá hvolfdi kajökunum og mennirnir misstu af þeim.

Kajakana rak að landi austan við ósinn en mennina rak frá landi um tvo kílómetra þar sem áhafnir gæsluþyrlnanna sáu til þeirra og hífðu upp úr sjónum. Mennirnir höfðu þá verið í sjónum í um eina og hálfa klukkustund.

Í tilkynningu frá lögreglunni kemur fram að kajakræðararnir hafi verið þarna á eigin vegum í tómstundaiðkun.

Nafn hins látna verður ekki gefið upp að svo komnu að beiðni aðstandenda.

Fyrri greinÖnnu Gretu sagt upp í Flóaskóla – segir uppsögnina ólöglega
Næsta greinSelfoss með pálmann í höndunum