Mengun frá Holuhrauni á Suðurlandi

Nokkur brennisteinsdíoxíð (SO2) mengun frá eldgosinu í Holuhrauni mun samkvæmt spá Veðurstofu Íslands verða greinanleg á Suðurlandi næstu daga.

Almannavarnir vilja hvetja almenning til þess að kynna sér upplýsingar um loftgæði á síðunni www.loftgaedi.is og á heimasíðu Umhverfisstofnunar. Einnig má finna upplýsingar á síðu Almannavarna.

Frá eldgosinu í Holuhrauni losna gosefni út í andrúmsloftið, sem geta haft áhrif á heilsu manna. Algengustu gosefnin eru vatn( H2O), koldíoxíð(CO2) og brennsteinsdíoxíð (SO2). Auk þess losna önnur efni eins og brennisteinsvetni (H2S), vetni (H2), kolmónoxíð (CO), vetnisklóríð (HCl), vetnisflúoríð (HF), og helíum (He), en í minna magni.

Helstu áhrif gastegunda frá gosinu á heilsu manna eru af völdum SO2. Helstu einkennin eru ertingur í augum, hálsi og öndunarfærum og við háan styrk getur fólk fundið fyrir öndunarörðugleikum. Verði fólk vart við mikla mengun er það beðið að halda sig innandyra og forðast óþarfa útiveru og auka kyndingu þegar mikil mengun gengur yfir og bíða eftir að mengunin gangi yfir. Þetta á sérstaklega við um ung börn og fólk með astma eða aðra undirliggjandi sjúkdóma.

Rétt er að geta þess að þetta ástand hefur verið viðvarandi frá því gosið hófst 31. ágúst síðastliðinn aðallega á Norður- og Austurlandi. Samkvæmt upplýsingum frá Landlæknisembættinu hafa engin alvarleg tilfelli verið tilkynnt til heilbrigðisyfirvalda vegna gasmengunarinnar. Á vefsíðu landlæknis er hægt að nálgast upplýsingar um áhrif mengunar á heilsufar og ráðleggingar um viðbrögð við SO2 frá eldgosinu.


Spákort Veðurstofunnar fyrir miðvikudaginn 8. október.

Fyrri greinGrímulaus leið misskiptingar og ójöfnuðar
Næsta greinSamstaða um forgangsröðun í þágu umferðaröryggis