Meistaraliðið í Ölfusinu óbreytt

Árný Leifsdóttir, Hannes Stefánsson og Magnþóra Kristjánsdóttir skipa Úrsvarslið Ölfuss. Ljósmynd/RÚV

Ríkjandi meistarar í Ölfusi mæta Grindavík í fyrsta þætti Útsvarsins í Ríkissjónvarpinu næstkomandi föstudagskvöld.

Ölfusingar unnu glæsilegan sigur í keppninni á síðasta vetri og er lið þeirra áfram skipað þeim Árnýju Leifsdóttur, Hannesi Stefánssyni og Magnþóru Kristjánsdóttur.

Útsvarið er með breyttu sniði í ár, færri sveitarfélög keppa og þáttaröðin verður stytt. Þannig er boðið til keppni þeim liðum sem hafa unnið Útsvarið síðastliðin 11 ár, komist í úrslit eða farið mjög nærri því. Einnig verða fjögur óhefðbundnari lið með í keppninni.

Sem fyrr eru það Sóli Hólm og Gunna Dís sem eru spyrlar en Jón Svanur Jóhannsson er nýr aðaldómari og spurningahöfundur.