Meirihlutinn í Rangárþingi ytra fallinn

Meirihluti Á-listans í Rangárþingi ytra er fallinn. Margrét Ýrr Sigurgeirsdóttir ætlar að mynda meirihluta með D-listanum.

Guðfinna Þorvaldsdóttir, oddviti Á-listans, staðfesti þetta í samtali við sunnlenska.is í morgun. Að sögn Guðfinnu sendi Margrét fyrrverandi félögum sínum í Á-listanum skilaboð um þetta með SMS og tölvupóstum í gærkvöldi.

Ekki hefur náðst í Margréti Ýrr í morgun en í fréttum undanfarna daga hefur komið fram að þreifingar væru í gangi milli hennar og D-listans.

Sjö fulltrúar sitja í hreppsnefnd Rangárþings ytra og í síðustu sveitarstjórnarkosningum vann Á-listinn tímamótasigur og fékk fjóra fulltrúa en D-listinn þrjá. Á-listinn fékk tæp 54% í kosningunum en D-listinn hafði verið með meirihluta í sveitarfélaginu í áraraðir.

Nánar verður fjallað um málið á sunnlenska.is í dag.