Meirihlutinn í Árborg í uppnámi

Meirihluti sjálfstæðismanna í Árborg er í uppnámi en Elfa Dögg Þórðardóttir íhugar að ganga til liðs við minnihlutann samkvæmt fréttum Bylgjunnar.

Sjálfstæðismenn eru með hreinan meirihluta í Árborg, fimm bæjarfulltrúa af níu. Samkvæmt heimildum Bylgjunnar íhugar Elfa Dögg nú alvarlega að segja skilið við meirihlutann. D-listinn vill að Árborg segi sig úr Skólaskrifstofu Suðurlands en Elfa Dögg er andvíg þeirri ákvörðun.

Ekki hefur náðst í Elfu Dögg vegna þessara frétta en samkvæmt heimildum fréttastofu Bylgjunnar funduðu sjálfstæðismenn í gær á heimili Eyþórs um stöðuna. Elfa Dögg var ekki á þeim fundi heldur fundaði hún með oddvitum minnihlutans.

Einn þeirra sagði í samtali við fréttastofu Bylgjunnar í morgun að myndum meirihluta hefði ekki verið til umræðu. Það væri enn ekki tímabært.

Eftir bæjarstjórnarfund á þriðjudag sagði Elfa í samtali við Sunnlenska að henni hafi verið tjáð að hún njóti ekki trausts í meirihlutanum vegna skólaskrifstofumálsins.