Meirihlutinn fallinn í Skeiða- og Gnúpverjahreppi

Meirihluti sveitarstjórnar í Skeiða- og Gnúpverjahreppi er fallinn en sveitarstjórnin samþykkti í dag vantrauststillögu á Gunnar Örn Marteinsson sem oddvita.

Í upphafi fundar kvaddi Björgvin Skafti Bjarnason, fulltrúi E-listans, sér hljóðs og lagði fram vantrausttillöguna. Tillagan var samþykkt af félögum Gunnars Arnar á K-listanum, Jóni Vilmundarsyni og Hörpu Dís Harðardóttur og Oddi Bjarnasyni, fulltrúa N-listans.

Gunnar Örn greiddi atkvæði gegn tillögunni en að atkvæðagreiðslunni lokinni kvaðst hann ekki lengur hafa umboð til að stjórna fundi og fól Jóni Vilmundarsyni, varaoddvita, fundarstjórnina.

Jón tók við fundarstjórn og bar fram tillögu þess efnis að Björgvin Skafti yrði kjörinn oddviti og var sú tillaga samþykkt af Jóni, Hörpu Dís, Skafta og Oddi en Gunnar Örn sat hjá. Jón sagði síðan af sér sem varaoddviti og samþykkt var tillaga Björgvins um að Oddur yrði kjörinn varaoddviti. Sú tillaga var samþykkt en Gunnar Örn sat hjá.

Að lokinni þessari afgreiðslu lagði Gunnar Örn fram eftirfarandi bókun.

„Hef aldrei þau rúm tíu ár sem ég hef setið í sveitarstjórn lent í því að finna fyrir þeim stuðningi við mín störf sem ég hef fundið fyrir undanfarið. Ég er afskaplega þakklátur fyrir það kveð oddvitastarfið í bili alla vega mjög sáttur við þann árangur sem náðst hefur þann tíma sem ég gegndi því. Bauð öðrum fulltrúum K-lista í sveitarstjórn það í gær að ég tæki mér leyfi í tvo mánuði og bauð jafnframt uppá þann möguleika að ég léti endanlega af störfum eftir það ef þeir sem skipuðu K-lista í síðustu kosningum teldu það vera fyrir bestu. Tel mjög hæpið að þeir fulltrúar K-lista sem standa að þessu meirihlutasamstarfi hafi meirihluta þeirra sem studdu þann lista síðast á bak við sig í þessari ákvörðun sinni.

Það er erfitt að gerast dómari í eigin sök en án efa á ég minn þátt í því hvernig mál hafa þróast hjá fulltrúum K-lista í sveitarstjórn og mun ekki fjalla meir um það í þessari bókun en leyfi öðrum fulltrúum listans að njóta vafans í þeim efnum enda nóg komið að tilgangslausu pexi í þeim herbúðum.

Vill biðja kjósendur K-lista afsökunar á því hvernig mál hafa þróast og mun gera þeim betur grein fyrir minni sýn á þessi mál á næstunni.

Óska nýkjörnum oddvita velfarnaðar í starfi og er tilbúinn að vera honum innan handar telji hann það geta komið sér að notum í sínum störfum.“

Eftir að hafa lagt fram áðurgreinda bókun vék Gunnar Örn af fundi. Hann kallaði ekki inn varamann.

Deilur hafa verið innan sveitarstjórnar í vetur um afgreiðslu leyfismála vegna minkabús sem til stendur að reisa í Ásum og hafa fulltrúar K-listans ekki verið samstíga í þeim efnum.

Fyrri grein„Slegið í gegn“ í aðrennslis-göngunum
Næsta greinZero sló í gegn á Stíl