Meirihluti Hvergerðinga hlynntur sameiningu

Meirihluti Hvergerðinga er hlynntur sameiningu sveitarfélaga en skoðanakönnun vegna sameiningarmála fór fram samhliða sveitarstjórnarkosningum í Hveragerði um helgina.

Niðurstaða skoðanakönnunarinnar var sú að 707 eða 63,3% vildu að Hveragerði myndi sameinast öðru sveitarfélagi en 380 eða 34% sögðu nei. Þrjátíu seðlar voru auðir. Þátt tóku 1.117 einstaklingar en á kjörskrá voru 1.787. Kosningaþátttaka var 62,5 %

Í skoðanakönnuninni gátu þátttakendur valið á milli fimm sameiningarkosta og eru niðurstöður eftirfarandi:

69,74% þeirra sem tóku þátt völdu sameiningu Hveragerðis og Ölfuss sem vænlegasta kost.

10,94 % völdu sameiningu vesturhluta Árnessýslu (Hveragerði, Flói, Árborg, Ölfus)

9,8% völdu Árnessýslu alla

3,69% völdu Suðurland í heild sinni

2.98% völdu Árnessýslu utan Árborgar

Fjórtán kusu án þess að tilgreina valkost og sex einstaklingar völdu fleiri en einn valkost.

Afgerandi niðurstaða liggur því fyrir í skoðanakönnuninni og mun bæjarstjórn taka skoðanakönnunina til afgreiðslu á fyrsta fundi sínum.

UPPFÆRT KL. 15:32

Fyrri greinTalsvert tjón á bíl við Bílval
Næsta grein72% Árborgarbúa vill skoða sameiningu