Fulltrúar Okkar Hveragerði og Framsóknarflokksins hafa hafið viðræður um myndun nýs meirihluta í Hveragerðibæ. Oddvitar framboðanna staðfestu þetta í samtali við mbl.is í dag.
Þar segir Sandra Sigurðardóttir, oddviti Okkar Hveragerðis, það vera forgangsmál að nýr bæjarstjóri verði ráðinn til starfa á faglegum grunni.
„Fólk er tilbúið í breytingar eftir sextán ár með hreinum meirihluta Sjálfstæðisflokksins,“ segir Sandra.
Okkar Hveragerði fékk 39,6% atkvæða og þrjá bæjarfulltrúa og Framsóknarflokkurinn fékk 27,5% og tvo bæjarfulltrúa. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði tveimur bæjarfulltrúum en D-listinn hefur haft hreinan meirihluta í Hveragerði frá árinu 2006.
Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, oddviti B-listans, segir að viðræður um nýjan meirihluta hafi hafist eftir umleitanir Okkar Hveragerðis. „Enda teljum við það eðlilega túlkun á niðurstöðunum. Kjósendur eru væntanlega að kalla eftir breytingum og því eðlilegt að fara í þessa áttina,“ segir Jóhanna.