„Meira af barnmörgum og stærri fjölskyldum sem þurfa aðstoð“

Sr. Guðbjörg Arnardóttir, sóknarprestur á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Mikil ásókn hefur verið í Sjóðinn góða í ár, svo mikil að sjóðurinn hefur tæmst.

„Sjóðurinn góði er samstarfsverkefni sóknarkirkja í Árnessýslu, Rauða krossins, félagsþjónustu Árborgar, félagsþjónustu Árnesþings, Hjálparstarfs kirkjunnar og ýmissa félagasamtaka í Árnessýslu. Sjóðurinn hefur þann tilgang að veita aðstoð fyrir jólahátíðina til handa þeim sem ekki eiga fyrir nauðþurftum.

Þetta samstarf hefur staðið síðan árið 2008,“ segir Guðbjörg Arnardóttir, sóknarprestur á Selfossi í samtali við sunnlenska.is.

Þung spor
„Fólk kemur í Selið við íþróttavöllinn á ákveðnum umsóknardögum, þar sem fulltrúar frá þessum aðilum sem standa að Sjóðnum aðstoða við umsóknir. Fólk þarf að koma með eða sýna gögn þar sem fram kemur hverjar mánaðarlegar tekjur eru og hver regluleg mánaðarleg útgjöld eru. Rétt er að taka fram að fyllsta trúnaðar er gætt og reynt að auðvelda fólki þessi þungu spor, að koma og sækja um, með hlýlegum móttökum. Ákveðnum upphæðum er úthlutað til einstaklinga og hjóna, svo bætist við upphæðina eftir fjölda barna á heimilinu,“ segir Guðbjörg.

„Það er ekki búið að fara ítarlega yfir allar tölur og vinna úr umsóknunum þetta árið en það kemur fólk á öllum aldri, bæði eldri borgarar og ekki síður ungt fólk. Ásóknin í ár hefur verið veruleg. Hún er þó svipuð og í fyrra en þó líklega að einhverju leyti meiri og má kannski skýra það af samsetningu umsóknanna. Það er meira af barnmörgum og stærri fjölskyldum heldur en oft áður, sem hækkar þá upphæð sem úthlutað er,“ segir Guðbjörg.

Sjóðurinn tómur
Sjóðurinn tæmdist í ár og það stóð til að hækka úthlutunarupphæðina frá því í fyrra en það var ekki hægt. Einhverjir fulltrúar úr Sjóðnum sendu á neyðarkall á nokkur fyrirtæki til að kanna hvort þau hefðu tök á að styrkja Sjóðinn. Það er enn hægt að leggja inn á hann og Guðbjörg segir að það sé hjálp í öllum upphæðum.

Reikningsnúmer sjóðins er: 325-13-301169, kennitala: 560269-2269.

„Þessi reikningur er í vörslu Selfosssóknar og lýtur sama hætti og aðrir reikningar sóknarinnar,“ segir Guðbjörg.

„Þá var einnig í bókasafninu á Selfossi, í Hveragerði og að ég held  Þorlákshöfn jólatré þar sem hægt var að fara með pakka sem gefnir verða þeim sem fá úthlutað,“ segir Guðbjörg en lokadagurinn til að setja pakka undir tréð á bókasafninu á Selfossi er í dag, 17. desember, en bókasafnið lokar kl. 19:00.

Fyrri greinAustanstormur með kvöldinu
Næsta greinBríet er skref í rétta átt á landsbyggðinni