Meintur brennuvargur handtekinn

Viðbragðsaðilar á vettvangi á Fossveginum. Mynd úr safni. Ljósmynd/sunnlenska.is

Einn er í haldi lögreglunnar á Suðurlandi eftir að eldur kviknaði í fjórða skiptið í fjölbýlishúsi við Fossveg á Selfossi eftir hádegi í dag.

Ríkisútvarpið greinir frá þessu og hefur eftir Garðari Má Garðarssyni, aðalvarðstjóra lögreglunnar á Suðurlandi, að ummerki bendi til íkveikju í húsinu.

Enginn eldur var í húsinu þegar viðbragðsaðila bar að garði en brunablettir voru í gólfteppi á stigagangi og mikil reykjarlykt. Slökkviliðið var þrisvar sinnum kallað að húsinu á einni viku í september og voru sterkar vísbendingar um íkveikju í öll skiptin.

Hinn handtekni er grunaður um aðild að öllum þessum málum en gerð var húsleit á heimili hans í dag. Yfirheyrslum yfir viðkomandi er ekki lokið. Vísir greinir frá því að sá hinn sami sé grunaður um fleiri íkveikjur á Selfossi, en eldur sem kviknaði á Nytjamarkaðnum við Eyraveg í gær sé rannsakaður sem íkveikja.

Frétt RÚV

Frétt Vísis

Fyrri greinBeitti hníf gegn samfanga sínum
Næsta greinHugarflug á sunnudaginn