Meiðslin reyndust ekki alvarleg

Mikill viðbúnaður var hjá lögreglu og viðbragðsaðilum vegna mjög harðs áreksturs tvegga bifreiða á Skeiðavegi við afleggjarann að Blesastöðum á laugardagsmorgun.

Sjö manns voru í bifreiðunum, fimm í fólksbifreið sem var ekið inn á Skeiðaveg í veg fyrir jeppa sem í voru tveir menn. Ökumaður og farþegar fólksbifreiðarinnar voru öll flutt með sjúkrabifreiðum á Slysadeild Landspítala í Fossvogi. Óttast var að kona úr hópnum hefði slasast mjög alvarlega en við frekari rannsókn kom í ljós að svo var ekki.

Auk lögreglu og sjúkraliðs voru á vettvangi starfsmenn Brunavarna Árnessýslu, sérfræðingar í bíltæknirannsóknum og vettvangsmælingum. Einnig kom Rannsóknarnefnd samgönguslysa að málinu. Ökutækin eru mjög mikið skemmd.

Málið er í rannsókn þar sem farið er yfir alla þætti er varðar akstur bifreiðanna í aðdraganda óhappsins.

Þá varð harður árekstur varð á Gaulverjabæjarveig vestan Stokkseyrar seint á þriðjudagskvöld í síðustu viku. Ölvaður ökumaður ók þar á kyrrstæða bifreið sem hafði verið yfirgefin þannig að hún stóð hálf inn á akbrautinni. Báðar bifreiðarnar enduðu utan vegar.

Bifreiðin sem var ekið á þá kyrrstæðu reyndist ótryggð sem þýðir að sá sem varð fyrir tjóninu er berskjaldaður. Eins og áður er komið fram hefur lögreglan á Selfossi verið í herferð við að taka ótryggð ökutæki úr umferð og á þessu ári eru þær orðnar um þrjátíu. Eins og þetta dæmi sýnir er það ekki af ástæðulausu að lögreglumenn fylgist ótryggðum ökutækjum.

Í síðustu viku voru fjórir ökumenn kærðir fyrir ölvunarakstur og einn fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna.

Lögreglan á Selfossi mun á næstunni fylgjast með því hvort ökutæki séu með skráningarmerki eins og vera ber. Eins og öllum á að vera kunnugt skal bifreið merkt að framan og aftan með skráningarmerkjum sem tilgreind eru í reglugerð um skráningu ökutækja. Ef skráningarmerki vantar eða er ógreinilegt þá varðar það 10.000 króna sekt.

Fyrri greinIPA styrkurinn lækkar um 12 milljónir króna
Næsta greinÞrjú innbrot á sunnudagsmorgun