„Megum við halda húsþræla, bara ef við gefum þeim að borða?“

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, ræddi stöðu aðgerðaáætlunar gegn mansali á Alþingi í dag. Tilefnið eru fréttir af niðurfellingu máls tveggja kvenna sem talið hafði verið að væri haldið í vinnuþrælkun í Vík í Mýrdal.

„Það er almennt þekkingar- og skilningsleysi á eðli mansalsmála í réttarkerfinu,“ sagði Andrés Ingi. „Samkvæmt aðgerðaáætlun gegn mansali hefur átt að fræða lögreglu, saksóknara og dómara. Eftir því sem fréttir segja virðist lögregla hafa staðið sig vel í þessu máli en svo strandar á saksóknarstiginu.“

Fyrr í vikunni sendi Andrés skriflega fyrirspurn til innanríkisráðherra vegna málsins, þar sem spurt er út í verkferla og fræðslu á grundvelli aðgerðaáætlunar gegn mansali.

„Þýðir það að við megum, eins og rómverskir þingmenn til forna, halda húsþræla, bara ef við gefum þeim að borða?“ spurði Andrés Ingi í ræðu sinni.