Megnið af stolnu flugeldunum fannst

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Megnið af flugeldunum sem stolið var í Þorlákshöfn í desember síðastliðnum fannst og komst aftur í réttar hendur fyrir áramót.

„Megnið af þýfinu fannst við rannsókn máls hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og var komið í hendur tjónþola þann 30. desember síðastliðinn. Rannsókn málsins stendur enn yfir og þar sem það er á forræði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þá munum við ekki upplýsa frekar um stöðu þess að sinni,“ sagði Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn, í samtali við sunnlenska.is.

Brotist var inn í flugeldagám fyrir utan Kiwanishúsið í Þorlákshöfn og uppgötvaðist innbrotið á annan dag jóla. Áætlað virði þýfisins var um þrjár milljónir króna.

Í tilkynningu frá Kiwanisklúbbnum Ölveri og Björgunarsveitinni Mannbjörgu kemur fram að tjónið vegna þjófnaðarins hafi því verið minna en leit út fyrir í fyrstu, flugeldasalan hafi gengið vel og endað réttu megin við núllið.

Fyrri greinSautján manns í einangrun á Suðurlandi
Næsta greinTveir bílstjórar kvaddir eftir samtals 70 ára akstur