Meðferð opins elds bönnuð í Árnes- og Rangárvallasýslu

Slökkviliðsmenn slökktu eld í sinu við Hæðarenda í Grímsnesi fyrr í dag. Ljósmynd/BÁ

Slökkviliðsstjórar Brunavarna Árnessýslu og Brunavarna Rangárvallasýslu hafa tekið þá sameiginlegu ákvörðun að banna meðferð opins elds vegna þurrkatíðar sem nú geisar. Bannið tók gildi kl. 13 í dag og á við um Árnessýslu og Rangárvallasýslu.

Í tilkynningu frá slökkviliðsstjórunum segir að þeir hafi sammælst um að slíkt bann sé nauðsynlegt þar sem mikil eldhætta getur skapast af litlum neista.

Bann þetta er í samræmi við 26. grein reglugerðar um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum þar sem segir að slökkviliðsstjóri geti bannað meðferð opins elds sé það talið viðsjárvert vegna veðurs eða af öðrum öryggisástæðum.

Fyrr í dag var lýst yfir hættustigi almannavarna vegna hættu á gróðureldum frá Eyjafjöllum vestur að Breiðafirði. Þessi ákvörðun er byggð á því að undanfarið hefur rignt lítið á þessu svæði og veðurspá næstu daga sýnir ekki neina úrkomu að ráði.

Almenningur og sumarhúsaeigendur á svæðinu eru hvattir til að:

  • Ekki kveikja eld innan sem utandyra (kamínur, grill, varðeldar, flugeldar og fleira).
  • Ekki nota einnota grill sem og venjuleg grill.
  • Kanna flóttaleiðir við sumarhús.
  • Huga að brunavörnum (slökkvitæki, reykskynjarar) og gera flóttaáætlun.
  • Ekki vinna með verkfæri sem hitna mikið eða valda neista.
  • Fjarlæga eldfim efni við hús (huga að staðsetningu gaskúta).
  • Bleyta í gróðri kringum hús þar sem þurrt er.
Fyrri greinHjálmlaus farþegi á vespu slapp með skrekkinn
Næsta grein1,6 milljarður króna í uppbyggingu og endurnýjun á Litla Hrauni