Meðaltalsfasteignamat þriðja hæst á Suðurlandi

Hveragerði. Ljósmynd/Mats Wibe Lund

Byggðastofnun hefur fengið Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) til að reikna út fasteignamat á sömu viðmiðunarfasteigninni um land allt.

Viðmiðunareignin er einbýlishús sem er 161,1 m² að grunnfleti og 476 m³ á 808 m² lóð. Fasteignagjöld eru reiknuð út af Byggðastofnun samkvæmt álagningarreglum ársins 2024 eins og þær eru í hverju sveitarfélagi, út frá fasteignamatinu sem HMS reiknar og gildir frá 31. desember 2023. Útreikningar voru gerðir fyrir 103 matssvæði í 49 sveitarfélögum.

Fasteignamatið á landsbyggðinni hæst í Hveragerði
Heildarfasteignamat (húsmat og lóðarmat) viðmiðunareignar er að meðaltali 63,2 milljónir króna en fasteignamat er mjög mismunandi eftir því hvar á landinu fasteignin er. Fasteignamat viðmiðunareignar í greiningunni er hæst á höfuðborgarsvæðinu eða 111,3 milljónir króna að meðaltali. Utan höfuðborgarsvæðisins er fasteignamat hæst á Akureyri,  Akranesi, í Keflavík og Hveragerði. Lægsta meðalfasteignamat landshluta er á Vestfjörðum 37,0 m.kr. og á Austurlandi 38,1 m.kr.

Samkvæmt Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hækkaði heildarfasteignamat íbúðareigna um 13,7% milli áranna 2023 og 2024. Mesta hlutfallslega hækkun fasteignamats viðmiðunareignar frá 2023 til 2024 var á Seyðisfirði 46,4% en þar næst á Þingeyri 39,5%, í Höfnum 38,7% og á Patreksfirði 38,0%.

Fasteignagjöldin hæst á Suðurlandi
Til fasteignagjalda teljast fasteignaskattur, lóðarleiga, fráveitugjald, vatnsgjald og sorpgjöld. Sorpgjöld eru ekki höfð inni í samanburði á fasteignagjöldum að þessu sinni vegna þess hve mismunandi aðferðum sveitarfélögin hafa beitt í álagningu sorpgjalda eftir innleiðingu svokallaðra „hringrásarlaga“.

Meðaltal heildarfasteignagjalda (án sorpgjalda) fyrir viðmiðunareign er um 392 þúsund krónur árið 2024. Hæsta meðaltal fasteignagjalda viðmiðunareignar er á Suðurlandi 455 þúsund og Suðurnesjum 420 þúsund en lægsta meðaltal landshluta er á Vestfjörðum 348 þúsund krónur. Meðaltal fasteignagjalda viðmiðunareignar hækkaði um 12,7% milli ára. Mesta hlutfallslega hækkun fasteignagjalda viðmiðunareignar varð á Suðurnesjum eða að meðaltali 21,3% og þar næst á Austurlandi 18,4%.

Samspil fasteignagjalda og fasteignamats
Þó fasteignagjöld séu ekki í fullkomlega beinu flútti við fasteignamat eru nokkuð sterk línuleg tengsl milli heildarfasteignamats og heildarfasteignagjalda viðmiðunareignarinnar eins og sjá má á punktaritinu hér að neðan. Línan sem dregin er í gegnum punktana 103 er aðhvarfslína og matssvæði þar sem fasteignagjöld eru frábugðin öðrum stöðum með sambærilegt fasteignamat lenda þá langt fyrir ofan eða neðan línuna.

Fyrri greinNeisti frá pylsugrilli hljóp í gróður
Næsta greinFögrusteinar buðu lægst í Borgarrima