Meðal topp 10% veitingastaða í heiminum

Ljósmynd/Samúelsson Matbar

Veitingastaðurinn Samúelsson Matbar í Mjólkurbúinu mathöll á Selfossi fékk nýverið viðurkenninguna Travelers Choice Award.

Viðurkenning af þessu tagi þýðir að veitingastaðurinn sé meðal topp 10% af öllum veitingastöðum í heiminum á ferðavefnum Tripadvisor. Samúelsson matbar er auk þess búinn að vera í fyrsta sæti á öllu Suðurlandi – af 140 stöðum – í þó nokkurn tíma núna.

„Að skrifa Tripadvisor umsögn er alls ekki sjálfgefið. Þetta er ekki eins og Google þar sem þú getur farið inn og sett inn 1-5 stjörnur á innan við mínútu án þess að hugsa þig um. Á Tripadvisor taka þeir ekki við umsögnum nema þær séu að lágmarki hundrað orð og hvetja mann til þess að skilja eftir myndir og meta hvern þjónustulið ýtarlega,“ segir Árni Bergþór Hafdal Bjarnason, eigandi Samúelsson Matbar, í samtali við sunnlenska.is.

Ljósmynd/Samúelsson Matbar

Yfir hundrað umsagnir
Árni segir að það sé með ólíkindum að lítill bás í mathöll nái að vekja upp þá þörf hjá viðskiptavinum að skilja eftir umsögn. „Á rúmlega ári frá því við byrjuðum á Tripadvisor höfum við fengið vel yfir hundrað umsagnir, sem er mun meira en nokkur stakur veitingastaður í öllum mathöllum landsins og meira en margir veitingastaðir sem hafa verið í rekstri í áraraðir.“

„Umsagnir eru eins og orðrómur milli manna á netinu þar sem ferðamaðurinn á greiða leið í sömu upplýsingar og heimamaðurinn. Þetta er vissulega frábær árangur fyrir Samúelsson, en það sem skiptir enn meira máli rekstrarlega séð er að ólíkt öðrum umsagnaraðilum þá er þrepaskiptinghjá Tripadvisor þar sem Samúelsson Matbar er í fyrsta sæti af 140 veitingastöðum á stór Suðurlandssvæðinu og það gerir okkur mun sýnilegri bæði í leitarvélum og á Tripadvisor.“

Eitt að ná fyrsta sætinu – annað að halda því
Árni segir að það sé hollt fyrir veitingastaði að keppa um fyrsta sætið – það haldi öllum á tánum. „Það er nefnilega eitt að ná fyrsta sætinu en allt annað að halda í það, þar sem það er mikil gróska á Suðurlandi með metnaðarfullu veitingafólki.“

„Það er ekki annað hægt en að fyllast stolti þegar hugarfóstur manns hlýtur slíka viðurkenningu. Við höfum gefið mikið af okkur til þess að halda þjónustu og mat í topp gæðum frá fyrsta degi og það er gríðar gott að vita að innfæddir sem og ferðamenn njóti góðs af.“

Ljósmynd/Samúelsson Matbar

Leiðist allt sem kallast venjulegt
Árni opnaði nýverið veitingastaðinn Fröken Selfoss ásamt eiginkonu sinni, Guðnýju Sif Jóhannsdóttur. Fyrir utan Samúelsson Matbar og Fröken Selfoss reka þau einnig ísbúðina Groovís og öfluga veisluþjónustu sem nýtir alla þessa innviði. Allir þessir staðir eru staðsettir í miðbæ Selfoss. „Ef horft er blákalt á allt það sem við erum með í gangi, Fröken Selfoss, Samúelsson Matbar og Groovís, þá er bersýnilegt að okkur leiðist allt sem getur kallast venjulegt. Það er hægt að kynna sér betur hvað við bjóðum uppá á vefsíðunum okkar. Við getum séð um veislur fyrir hvert tækifæri, hvort sem það sé einkakokkur í heimahúsi fyrir fjóra manns, stór árshátíð uppá hálendi fyrir 450 manns eða þá að leigja Groovís vagninn okkar með kandíflossi, krapi, kleinuhringjum og sápukúluvél fyrir barnaafmæli eða útihátíðina.“

„Þó að nöfnin á réttunum hjá Samúelsson séu klassísk, eins og Fish and chips eða steikarloka þá eru þessir réttir ekkert líkir því sem þú gætir hafa smakkað annars staðar og eru afgerandi öðruvísi á besta mögulegan máta. Steikarlokan er til dæmis með hægeldaðri kálfa ribeye steik sem er lygilega meir, þú færð svo að velja hvort þú viljir fá 120 gramma eða 180 gramma steik í samlokuna þína, sem er borin fram í grilluðu súrdeigsbrauði frá GK bakaríi, bernaise, brúnuðum sveppum og rauðbeðu pikkluðum rauðlauk.“

„Núna vinnum við hörðum höndum að því að koma upp sama gæðastaðli á Groovís og Fröken Selfoss. Við erum búin að vera mjög heppin með starfsfólk og erum með gríðar sterkt teymi af metnaðarfullu fólki bæði í þjónustu, eldhúsi og á Groovís, sem öll hafa tekið mjög vel í okkar einföldu veitingarrekstraspeki sem við höfum summerað niður í eitt lítið mottó: Það fara allir í burtu brosandi,“ segir Árni að lokum.

www.groovis.is

www.samuelsson.is

www.frokenselfoss.is

 

 

Fyrri greinTómas Ingi ráðinn framkvæmdastjóri
Næsta greinEkki sektað fyrir nagladekkin