„Með því verra sem maður hefur séð“

Súrheysturninn á Skíðbakka er ónýtur eftir óveðrið í morgun. sunnlenska.is/Sigurður Jónsson

Súrheysturninn á Skíðbakka í Austur-Landeyjum stórskemmdist í óveðrinu í morgun. Hann hreinlega krumpaðist saman og er gjörónýtur.

Turninn hefur sinnt hlutverki korngeymslu auk þess sem á honum er fjarskiptabúnaður frá Vodafone. Sá búnaður skemmdist ekki.

„Þetta er stórtjón og staðan er ekki góð þó að mesta veðrið sé gengið niður. Við þurfum að finna leið til að ná turninum niður og reyna að halda við hann til þess að stýra honum í rétta átt,“ sagði Elvar Eyvindsson bóndi á Skíðbakka í samtali við sunnlenska.is.

„Þetta hefur gerst snemma í morgun, versta veðrið hér var milli klukkan 5 og 8 en við urðum ekkert vör við það þegar þetta gerðist, segir Elvar og bætir við að turninn, sem er rúmlega 21 metra hár,“ hafi staðið ýmislegt af sér í gegnum tíðina.

„Hann stóð af sér febrúarveðrið 1991 og ýmislegt fleira en ég held að það sé óhætt að segja að veðrið í morgun hafi verið með því verra sem maður hefur séð. Það var gríðarlega slæmt veður hérna og vindáttin hitti illa á turninn. Það er ennþá leiðinda rok hérna, þrælhvasst, en það er allt logn miðað við hvernig þetta var í morgun.“

Ekki varð mikið annað tjón á Skíðbakka, stór hurð á fjósinu fauk upp en annars er bærinn ágætlega varinn af trjágróðri.

„Trén gefa gott skjól og það væri allt í lagi ef það væri meira af trjágróðri á Suðurlandi. Það mætti segja að það væri almannavarnamál,“ sagði Elvar að lokum.

Gjarðir á turninum hafa látið undan vindinum og hann hreinlega krumpast saman. sunnlenska.is/Sigurður Jónsson
Fyrri greinBjörgunarsveitir sinntu á annað hundrað útköllum
Næsta greinDaði og Gagnamagnið fara á kostum í nýju myndbandi