Með „Ísland er land þitt“ á kassettu í vasanum

Hefð er fyrir því að flutja Ísland er land þitt við setningu sambandsþings sem og móta UMFÍ og á þinginu á Geysi var það höfundurinn sjálfur sem steig á stokk og flutti lagið. Ljósmynd: UMFÍ/Jón Aðalsteinn

Tónlistarmaðurinn Magnús Þór Sigmundsson var að húkka sér far með upptökur af laginu Ísland er land þitt á kassettu í vasanum þegar Sigurður Geirdal, þáverandi framkvæmdastjóri Ungmennafélags Íslands, tók hann upp í. Áður en bílferðinni lauk höfðu Sigurður og Magnús samið um útgáfu á laginu sem hefur lengi verið einkennislag UMFÍ.

Þetta kemur fram í viðtali við Magnús Þór í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímarits UMFÍ.

„Mér hefur alltaf þótt vænt um Ungmennafélag Íslands, keppti á mótum í spjótkasti og síðan er það Ísland er land þitt,“ segir Magnús Þór, sem býr nú í Hveragerði. Hann kom fram við setningu sambandsþings UMFÍ á Geysi í Haukadal á dögunum og flutti lagið en áður sagði hann áhorfendum sögu lagsins og tengingu þess við UMFÍ.

Magnús Þór segir sögu lagsins á Geysi. Ljósmynd: UMFÍ/Magnús Þór

„Þetta var annað hvort árið 1981 eða 1982. Ég var sumsé að húkka mér far og Sigurður Geirdal tók mig upp í. Ég sagði honum að ég hefði verið að taka upp lag og væri að fara yfir upptökurnar. Svo skelltum við kassettunni í tækið og hlustuðum á lagið, sem Pálmi Gunnarsson söng. Sigurður varð svo hrifinn af laginu að hann vildi fá að nota það á vegum Ungmennafélags Íslands á einhvern hátt. Áður en bílferðinni lauk vorum við líka búnir að semja um að UMFÍ myndi selja plötuna fyrir mig og félagið líka,“ segir Magnús Þór.

Ísland er land þitt er eitt tíu laga á hljómplötunni Draumur aldamótabarnsins, sem kom út árið 1982. UMFÍ tók að sér sölu og dreifingu og segir Magnús það hafa verið gott.

„Þau seldu að mig minnir 1.500 eintök og það bjargaði mér alveg á þessum tíma,“ segir hann. Lagið er meðal þeirra þekktustu úr smiðju Magnúsar Þórs og hefur komið til álita sem nýr þjóðsöngur landsmanna en það hefur verið notað við ýmis tækifæri eins og lesa má um í viðtalinu við Magnús Þór í nýjasta tölublaði Skinfaxa.

Fyrri greinGul viðvörun vegna snjókomu
Næsta greinSuðurlandsmótið í skák fært á Selfoss