Með fíkniefni í formi hlaupbangsa og súkkulaðis

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Karlmaður, sem vísað hafði verið út af veitingstað í Hveragerði í síðustu viku, var handtekinn óviðræðuhæfur sökum vímuástands og færður í fangaklefa.

Við afskipti lögreglu reyndi hann að koma frá sér kannabisefnum sem hann var með á sér og þegar nánar var að gáð reyndist hann einnig hafa meðferðis töluvert magn mismunandi fíkniefna í neyslupakkningum, sum þeirra í formi súkkulaðimola og önnur í formi hlaupbangsa.

Efnið var haldlagt og einnig reiðufé sem maðurinn var með á sér. Hann var yfirheyrður daginn eftir og þá var leitað á heimili hans þar sem bæði fannst meira af fíkniefnum og reiðufé.

Við skýrslutöku viðurkenndi maðurinn að hafa verið að dreifa fíkniefnum og að fjármunirnir væru afrakstur þeirrar iðju. Hann var látinn laus að skýrslutöku lokinni en rannsókn heldur áfram.

Fyrri greinFyrsti sigur FSu í 32 ár
Næsta greinVonast til að ná vélinni upp um miðjan apríl