Með óspektir við vistina

Ölvaður maður var handtekinn á Selfossi í nótt, þar sem hann var með óspektir við heimavist FSu í Fosstúni við Eyraveg.

Maðurinn var að reyna að ryðjast inn á heimavistina og lét ófriðlega. Sjálfur er hann rétt rúmlega tvítugur. Lögreglan á Selfossi handtók manninn og gisti hann fangageymslur í nótt. Hann bíður nú yfirheyrslu.

Þá var einn ökumaður stöðvaður fyrir ölvunarakstur í Hveragerði í nótt og á Biskupstungnabraut fannst smáræði af fíkniefnum í fórum farþega í bíl einum sem þar var á ferð.