Með kíló af kannabis í bílnum – Ræktað í Þorlákshöfn

Snemma á föstudagsmorgun var ökumaður stöðvaður á Eyrarbakkavegi á milli Eyrarbakka og Selfoss. Í ljós kom að í bifreið hans var talsvert magn, um eitt kíló af kannabisefnum.

Maðurinn var handtekinn og færður í fangageymslu.

Frekari rannsókn leiddi í ljós að maðurinn var að koma frá geymsluhúsnæði í Þorlákshöfn þar sem kannabisræktun hafði verið í gangi. Þar var nýafstaðin ræktun og af ummerkjum að dæma mátti ætla að verið væri að flytja ræktunina á annan stað.

Sá handtekni viðurkenndi að hafa verið að aðstoða félaga sinn við að flytja efnin úr geymsluhúsnæðinu en hann hafi ekki komið að ræktuninni sjálfri.

Málið er í rannsókn og efnin verða send til efnarannsóknar.