Með „hjarta Justin Bieber“ í vegabréfinu

Það eru líklega ekki margar stúlkur sem hafa staðfest ást sína á Justin Bieber í vegabréfi sínu. Selfyssingurinn Jasmín Ásta Óladóttir komst þó upp með það þegar hún fékk nýtt vegabréf fyrir jól.

Í prakkaraskap sínum gerði hún upphafsstafi söngstjörnunnar, JB, með hjarta utanum, fyrir aftan nafnið sitt í undirskriftinni á vegabréfinu. Jasmín Ásta er mikill aðdáandi Bieber en hún er tíu ára og býr með fjölskyldu sinni í Gladsaxe í Danmörku.

Einhverjir aðdáendur Justin Bieber eru greinilega innan veggja íslenska sendiráðsins í Kaupmannahöfn því vegabréfið var gefið út án nokkurra athugasemda.

„Við hlógum bara að þessu en ég er hræddur um að hún eigi eftir að pirra sig á þessu eftir einhver ár,“ sagði Óli Rúnar Eyjólfsson, faðir Jasmínar, í samtali við sunnlenska.is.