Mávurinn sér um sorpdreifingu

„Þetta er kunnáttuleysi,“ segir Ragnar Sigurjónsson, á gámasvæði Árborgar, en einhver skildi eftir þrjá svarta ruslapoka við hlið gámastöðvarinnar í gærkvöldi.

Mávahópur tók það síðan að sér að opna pokana og dreifa innihaldinu um nágrennið þannig að aðkoman var ekki fögur þegar starfsmenn gámasvæðisins komu til vinnu í morgun.

„Sem betur fer er þetta ekki algengt og starfsmenn áhaldahússins hreinsuðu þetta upp strax í morgun,“ segir Ragnar. „Við verðum að vona að fólk passi sig á þessu, þetta er vanhugsað því mávurinn er strax kominn í þetta,“ segir Ragnar.