Matvælaráðherra heimsótti kúabændur á Suðurlandi

F.v.: Aðalbjörg Rún Ásgeirsdóttir formaður frá Stóru-Mörk 3, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra, Bóel Anna Þórisdóttir meðstjórnandi frá Móeiðarhvoli og Borghildur Kristinsdóttir meðstjórnandi frá Skarði í Landssveit. Ljósmynd/DL

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra heimsótti nýverið kúabúið á Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum.

Við það tækifæri hitti ráðherra stjórn félags kúabænda á Suðurlandi sem er skipuð þremur konum, þeim Aðalbjörgu Rún Ásgeirsdóttir frá Stóru-Mörk 3, Bóel Önnu Þórisdóttur frá Móeiðarhvoli og Borghildi Kristinsdóttir frá Skarði í Landssveit.

Stjórn félagsins ræddi ýmis málefni kúabænda við ráðherra s.s. afkomu kúabænda, búvörusamninga og samkeppnishæfni bænda gagnvart innflutningi.

„Heimsókn á borð við þessa og þær umræður sem henni fylgdu í kjölfarið er nokkuð dýrmæt,“ sagði matvælaráðherra. „Þarna gafst kostur á að ræða þau málefni sem brenna á kúabændum en stéttin hefur þurft að takast á við aukna byrðar síðustu misseri líkt og margir landsmenn. Það er á ábyrgð okkar kjörinna fulltrúa að leggja við hlustir þegar kostur gefst og nýta sem best það sem við heyrum og skynjum við slík tækifæri“.

Fyrri greinÍbúar Árborgar orðnir tólfþúsund talsins
Næsta greinTómatar & tangó á Friðheimum