Mátti breyta gróðurhúsi í hesthús

Fyrir skömmu felldi Úrskurðarnefnd skipulagsmála úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Hveragerðis um að hafna umsókn um að breyta gróðurhúsi í landi Friðarstaða í hesthús.

Úrskurðarnefndin tók málið fyrir eftir að íbúar á Friðarstöðum kærðu ákvörðun Hveragerðisbæjar. „Þetta er það sem ég bjóst við,“ sagði Diðrik Sæmundsson, ábúandi á Friðarstöðum, sem finnst stjórnsýslan á lágu plani í Hveragerði.

Forsaga málsins er sú að árið 2008 sendu ábúendur á Friðarstöðum í Hveragerði beiðni til bæjaryfirvalda um hvort leyfilegt væri að breyta gróðurhúsi í hesthús. Gróðurhúsið hafði farið illa í jarðskjálftum það ár. Beiðninni var hafnað í ársbyrjun 2009 eftir athugasemdir frá íbúum í nágrenni Friðarstaða.

Úrskurðurnefnd skipulags- og byggingarmála felldi úrskurðinn um höfnun úr gildi á þeim forsendum að bygging hesthússins hafi verið í samræmi við gildandi landnotkun svæðisins og að lög segi ekki til um að umrætt búfjárhald sé óheimilt í þeirri fjarlægð frá landamörkum sem hér um ræðir. Þó verða ábúendur að bera ábyrgð á því að búfé þeirra gangi ekki inn á land annarra.

Úrskurðurinn var tekinn fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar Hveragerðis í síðustu viku. Nefndin leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulag Friðarstaða verði tekið til endurskoðunar í samráði við ábúendur þar sem hugmyndir þeirra verði hafðar til hliðsjónar við skipulagsgerðina.

Fyrri greinÆgiskrakkar til fyrirmyndar
Næsta greinVarðstjóri sýknaður af ákæru