Matthías vill leiða lista Framsóknar

Matthías Bjarnason. Ljósmynd/Aðsend

Matthías Bjarnason hefur ákveðið að bjóða sig fram til að leiða lista Framsóknar í Árborg í komandi sveitarstjórnarkosningum.

Árið 2018 var Matthías yngsti sveitarstjórnarmaður landsins en hann bauð sig fram 17 ára gamall í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og tók svo sæti í sveitarstjórn árið 2018, þá rétt orðinn 18 ára.

„Það var mikill lærdómur. Maður áttar sig fljótt á því hversu grimm stjórnmálin geta verið, en einnig hversu skemmtilegt og gefandi er að starfa í þágu nærsamfélagsins,“ segir Matthías.

Árið 2022 flutti Matthías á Selfoss og sagði sig úr sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Hann skipaði 5. sætið á lista Framsóknar í Árborg í sveitarstjórnarkosningunum 2022

„Ég hef setið í skipulagsnefnd á kjörtímabilinu og er einnig varabæjarfulltrúi. Það hefur verið bæði skemmtilegt og lærdómsríkt og hef ég nýtt tímann til að safna reynslu og þekkingu, ásamt því að veita ríkjandi meirihluta aðhald þar sem ég tel þess þörf. Lífið hefur gengið hratt fyrir sig á síðustu árum. Við Daníela eignuðumst frumburð okkar, Stefán Atlas, í september 2024. Samhliða því sat ég á skólabekk og útskrifaðist í sumar með BA-gráðu í opinberri stjórnsýslu. Við eigum von á öðrum dreng í mars og getum þá með stolti kallað okkur vísitölufjölskyldu,“ segir Matthías.

„Ég tel vanta ferskt fólk í stjórnmálin í Árborg, fólk sem horfir af metnaði til framtíðar. Af varamannabekknum á yfirstandandi kjörtímabili hef ég séð hvernig sumir festast í fortíðinni og eyða mikilli orku í rifrildi um liðna tíð. Staðan er eins og hún er og við breytum ekki fortíðinni. Við getum haft áhrif á framtíðina og það er það sem ég vill gera.“

Matthías er sjálfstætt starfandi í gegnum eigið fyrirtæki. Hans aðal starf er að senda út hina ýmsu sjónvarpsviðburði, streymi frá útförum eða viðburðum, ásamt stöku myndbandsupptökum, sviðsstjórn á viðburðum og fleira.

Framsóknarfélag Árborgar mun halda lokað, rafrænt prófkjör í byrjun mars þar sem kosið verður um þrjú efstu sæti listans og þar býður Matthías sig fram í 1. sætið.

Fyrri greinGrófu sér djúpa holu í upphafi leiks
Næsta greinOrðræða sem sameinar – ekki sundrar